Ég hef látið plata mig til að sjá um spurningakeppni milli deilda innan Orkuveitunnar, sem til stendur að halda á nokkrum kvöldstundum í vetur. Ég geri fastlega ráð fyrir að um þessa keppni verði fjallað sérstaklega í kvöldfréttum sjónvarps með viðtölum við getspaka Orkuveitustarfsmenn og stuttu spjalli við Guðmund Þóroddsson forstjóra um hversu mikilvægar svona samkomur séu fyrir starfsandann í fyrirtækinu.…eða ekki…Nei, auðvitað dettur engum fréttamanni í hug að búa til frétt um vinnustaðaruppákomu á vegum starfsmannafélags. Meira að segja Magnús Hlynur myndi ekki flytja slíkar fréttir úr sinni heimasveit… Hvernig yrðu líka fréttatímarnir ef í sífellu væri sagt frá kökubasar starfsfólks HB-Granda, jólaföndri kennarafélags Austurbæjarskóla eða skokkklúbbi þjónustufulltrúanna hjá Byr?Þó gilda sérstakar reglur um eitt íslenskt stórfyrirtæki. Það er Fjarðaál á Reyðarfirði. Þaðan koma reglulega smellnar fréttir af því hvað vinnumórallinn sé góður og margt sniðugt brallað hjá starfsmannafélaginu. Ekki veit ég hversu margar fréttir voru fluttar af því að til stæði að stofna hljómsveit starfsmanna eða að lýst væri eftir trommuleikara. (Fyrir nokkrum misserum var riggað upp þremur hljómsveitum innan Orkuveitunnar í tengslum við einhverja árshátíð eða skemmtun.)Á gær var svo löng frétt í aðalfréttatíma Sjónvarpsins um að starfsmenn Fjarðaáls æfðu saman fótbolta og hefðu sent lið inn í firmakeppni Austurlands en tapað öllum sex leikjunum sínum. Litið var inn á æfingu og fyrirliðinn tekinn tali.Eru menn ekki að grínast?Er enginn yfirmaður á fréttastofu Sjónvarpsins sem gerir sér grein fyrir því hvað eip-fréttir á borð við þessa grafa undan orðspori hennar? Ég ætlast ekki til að fréttaritarinn fyrir austan átti sig á þessu, en hvað með vaktstjóra eða bara einhvern annan? Ég trúi því ekki að fréttaþulunum þyki þægilegt að sitja undir svona fréttum…