Egill Helgason veltir fyrir sér uppruna orðsins „pappírskilja“ og varpar fram skemmtilegri upprunaskýringu. Ég sló inn orðinu „kiljur“ í orðaleitinni á Moggavefnum og það stendur heima að nafnið er kynnt til sögunnar sem nýyrði þann 7. júní 1969.
Á þeirri grein er velt upp ýmsum álitamálum varðandi fjöldaframleiðslu á bókum af þessu tagi – hvort það sé til marks um skrílvæðingu bókamarkaðarins eða frábær leið til að koma góðbókmenntum til fjöldans fyrir slikk.
Þarna er staðhæft að bók Thors Heyerdals um Kon-Tiki sé nú „mest selda bók í heimi næst Biblíunni“. Það eru nú ófáar bækurnar sem hafa fengið þessa einkunn. Ætli maður gæti ekki búið til lista yfir amk. 10 bækur sem hafa í gegnum tíðina átt að standa undir þessu. (Á sama hátt og ófáir herir hafa verið sagðir þeir fjórðu stærstu í heimi.)
Auðvitað hlýtur einhver bók að vera sú næstsöluhæsta í heimi (þá að því gefnu að Biblían sé örugglega sú söluhæsta) en ég er nokkuð viss um að hr. Heyerdal hefur aldrei aldrei vermt það sæti.