30. september er vondur dagur fyrir stuðningsmenn fátækra fótboltaliða. Félagaskiptaglugginn lokast á miðnætti, sem þýðir að allir eru með lífið í lúkunum – skyldi á síðustu stundu berast fréttatilkynning um að þessi eða hinn leikmaðurinn hafi verið seldur á brott?
Að þessu sinni höfðum við ástæðu til að ætla að markaskorarinn Bell færi til einhvers efrideildarliðsins. Sunderland, Southampton og Stoke voru öll nefnd.
Luton-spjallborðið var óvenjufjölskipað í kvöld af fólki sem refreshaði í sífellu, alltaf undirbúið undir ótíðindi sem aldrei komu.
Aldrei þessu vant seldum við engan leikmann á síðasta degi leikmannamarkaðarins – þótt það dragi aðeins úr ánægjunni að okkur virðist líka hafa mistekist að kaupa nýjan markvörð.