Fólk keppist við að spyrja mig að því hvernig það muni ganga upp að hafa brúðkaup á sama degi og síðasta umferðin í Íslandsmótinu. Því er auðvelt að svara.
Athöfnin, sem verður við félagsheimili OR í Elliðaárdalnum, hefst ekki fyrr en þremur kortérum eftir að flautað hefur verið til leiksloka. Það gefur boltabullum í hópi brúðkaupsgesta tækifæri til að jafna sig á úrslitunum. Þeir sem vilja mæta á völlinn eiga meira að segja að ná því með því að mæta beint að leik loknum.
Til að gera boltaþyrstum lífið enn auðveldara hef ég náð hagstæðum samningum við Orkuveituna um að sýna fótboltann í sal Rafheima, steinsnar frá félagsheimilinu. Þá þarf enginn að missa af neinu (og ég næ sjálfur að sjá einhverjar mínútur á milli þess sem ég stend í snatti og reddingum).
En hvaða úrslit eru vænlegust til að tryggja sem besta stemningu í partýinu? Jú, þarna verða gallharðir Valsmenn, Framarar, Víkingar og KR-ingar – en minna um FH-inga og HK-menn. Það þýðir að hin besta blanda væri titillinn á Hlíðarenda og HK niður.
Það er sem sagt búið að hugsa fyrir öllu!
# # # # # # # # # # # # #
Var að lesa í dag um viðureign Fram og Barcelona í Evrópukeppninni 1990. Liðin mættust í 16-liða úrslitum, en liðunum þar var skipt upp í styrkleikaflokka sem byggðu á fyrri árangri í Evrópu. Það er kúnstug staðreynd að Manchester United (sem vann keppnina þetta árið) var í veikari flokknum ásamt Fram, enda ensku liðin nýkomin úr keppnisbanni, en í hópi liðanna átta í sterkari flokknum var Wrexham frá Wales – sem þetta sama keppnistímabil hafnaði 92. og neðsta sæti ensku deildarkeppninnar…
# # # # # # # # # # # # #
Þetta virðist ætla að verða bikarár hjá Luton. Lítið gengur í deildinni, en í deildarbikarkeppninni slógum við út Sunderland á dögunum og svo Charlton í kvöld. Erum komnir í 16-liða úrslit sem er bara fjári gott.
Stuðningsmennirnir eru kátir. Þeir vilja útileik gegn stórliði (eða í einhverri partý-borginni á Suðurströndinni). Ég vil heimaleik gegn stórliði – til að eiga möguleika á að sjá mína menn á Sýn. Arsenal eða Manchester United heima væri fínt…