Sko til, þetta gátum við!
Kvöld nokkurt síðasta vetur, þegar við vorum að vaska upp leirtauið, spurði Steinunn hvort við ættum ekki bara að drífa í að gifta okkur? Ég játti því og svo héldum við áfram að vaska upp og sinna gestum.
Um mitt sumar negldum við niður daginn. Pöntuðum félagsheimili Orkuveitunnar í Elliðaárdal og bókuðum Hilmar Örn allsherjargoða.
Skömmu áður hafði Stebbi Hagalín sagt mér frá búðkaupsveislu Helga Hjörvar og Þórhildar, þar sem gjafir hefðu verið afþakkaðar en gestir verið beðnir um að koma með rétt á hlaðborð og vínflösku í púkkið. Þetta sagði hann að hefði tekist frábærlega – og ég varð strax skotinn í hugmyndinni. Eftir nokkrar umræður tókst mér að sannfæra Steinunni um það sama.
Fyrir tæpum mánuði sendum við út boðskortin. Það voru u.þ.b. 80 manns á gestalistanum, langflestir vinir og kunningjar – sárafáir ættingjar og vinnufélagar.
Sjálft brúðkaupið fór svo fram í gær, laugardag. Athöfnin var stutt og einföld á grasflöt fyrir neðan félagsheimilið. Það var mjög skemmtilegt að fá Hilmar Örn til að sjá um hana, enda er hann gull að manni.
íhyggjur sumra af eldri kynslóðinni varðandi tilhögunina varðandi matinn reyndust óþarfar. Þarna var nóg að éta og réttirnir hver öðrum glæsilegri. Barinn var sömuleiðis að svigna af veigum, en auk léttvínsins frá gestunum bættum við við fordrykk og slatta af bjór.
Félagi Proppé setti svo ný viðmið í veislustjórn, þar sem hann stýrði dagskránni eins og herforingi og greip svo gítarinn og spilaði með hljómsveit kvöldsins, Hinum geðþekku fautum. Fautarnir voru frábærir. Sama má raunar segja um Svavar Knút sem mætti fyrr um kvöldið og tók nokkur lög. Palli Hilmars dí-djeiaði svo á undan og eftir bandinu. Hann spilaði m.a.s. Skid Row fyrir Steinunni, en lét ekki verða af hótunum sínum um að leika Valslagið með Stefáni Hilmars.
(Rétt er að þakka mínum mönnum í Fram sérstaklega fyrir framlag þeirra til veislunnar – þ.e. að falla ekki niður um deild.)
Er gaman að vera kvæntur? Ójá, svo sannarlega.
Spurningin er – á ég að fara að kalla Steinunni, Frú Steinunni, hér eftir?
# # # # # # # # # # # # #
Heimili okkar er nú fullt af trogum, diskum og ílátum sem gestir skildu eftir. Eigendur eru beðnir um að gefa sig fram hið fyrsta.