Mér finnst það hörmulegt að Ringo Starr hafi komið til landsins og farið aftur án þess að fjölmiðlum hafi tekist að rifja almennilega upp þegar hann mætti í Atlavík fyrir skrilljón árum og var á fylleríi yfir verslunarmannahelgi.
Hvernig stendur á því að Jakob Frímann Magnússon er ekki kallaður í fleiri viðtöl til að rifja upp þessa skemmtilegu sögu? Hvað með söguna af koníakinu sem Ringo blandaði út í kók? Eða hrossinu sem hann reyndi að sitja? Hvers vegna má ekki rifja upp þessar sögur sem við höfum nánast aldrei fengið að heyra? – Það mætti jafnvel gefa Jakobi eitthvert hnyttið viðurnefni, eins og „Bítlagæslumaður“.
Mér finnst það sláandi hvernig fjölmiðlar reyna með kerfisbundnum hætti að þagga niður kynni Jakobs Frímanns og Ringo. Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingur drekkur með frægum manni – við eigum rétt á að fá að heyra þessa skemmtilegu sögu aftur og aftur og aftur…
Jafnframt mætti Jakob Frímann segja oftar skemmtilegu söguna af fitubollunni sem var afklædd og máluð blá í Húnaveri.