Eftirmiðdagurinn fór í að sitja á Þjóðarbókhlöðunni og spæna sig í gegnum írbók íþróttamanna frá fimmta áratugnum og íþróttablaðið frá tíunda áratugnum, í ritstjórn Þorgríms Þráinssonar. Það er magnað að lesa þetta svona hlið við hlið – þar sem efnislega er verið að fjalla um sama efni: íþróttaúrslit og fréttir af íþróttafólki, en stíllinn og efnistökin þó svo gjörólík.
íþróttablaðið hans Þorgríms var bara oft fjári gott. Mörg flott viðtöl og vitræn umfjöllun um hluti sem skipta máli, þótt annað hafi ekki elst eins vel. Það skrítnasta við blaðið tengist þó myndmálinu – þar sem oft er gengið fáránlega langt í að stilla íþróttafólkinu upp í módel-pósum þar sem reynt er að sýna sem allra mest hold. Þannig voru reglulega myndaþættir með sundfatamódelum, vaxtaræktarliðið fékk sinn skammt, nokkrir íþróttastrákar í sakleysislegum viðtölum voru myndaðir í sturtu og einhverjar boltastelpur stilltu sér upp berar að ofan með bolta fyrir brjóstunum.
Man samt ekki eftir að hafa heyrt neina krítík á þetta á sínum tíma. Og blaðið hefur örugglega selst betur með sundfataforsíðurnar.
# # # # # # # # # # # # #
Á kvöldfréttum Sjónvarps var þeirri samsæriskenningu varpað fram að Framsóknarflokkurinn væri að hlaupa í fang stjórnarandstöðunnar í Reykjavík. Það er kenning sem heldur illa vatni – þó ekki væri nema af þeirri einföldu ástæðu að VG, Samfylking og Framsókn hafa ekki samanlagðan meirihluta.
Frjálslyndir yrðu að hlaupa undir bagga – en ég sé ekki hvernig það á að geta gengið upp. Hinn kjörni borgarfulltrúi Frjálslyndra, Ólafur F. Magnússon hefur ekki sést í marga mánuði og alls óljóst hver hans aðkoma að borgarstjórn á eftir að vera. Varamaður hans, Margrét Sverrisdóttir – sem er varaborgarfulltrúi en titlar sig sem borgarfulltrúa – er hætt í Frjálslynda flokknum og reynir væntanlega að ríghalda í þá skilgreiningu að Frjálslyndir „og óháðir“ hafi verið í framboði síðast. En hvernig getur kona sem er varaformaður annars stjórnmálaafls (sem hefur reyndar ekki enn haldið raunverulegan stofnfund) kallað sig „óháða“ – það er augljóslega bara vitleysa.
Og segjum svo að Margrét Sverrisdóttir kjósi að sitja áfram til loka kjörtímabilsins – hvað gerist þá ef hún fær flensu eða bregður sér til útlanda? Er meirihlutinn þá í uppnámi? Hvernig eru varamenn Margrétar þenkjandi í öllum þessum Frjálslyndra/Íslandshreyfingarmáli? Myndi fólk neðar af listanum fara inn í nefndir? Væri stjórnarsáttmálinn gerður við Frjálslynda og óháða eða bara beint við Margréti?
Nei, staðan er því miður sú að meirihlutastjórn verður ekki mynduð í Reykjavík án aðildar Sjálfstæðisflokksins. Þetta veit íhaldið og Björn Ingi líka. Hans samningsstaða er nefnilega ekkert svo sterk.
# # # # # # # # # # # # #
Þorvaldur Örlygsson til Fram? Yrði það ekki bara þokkaleg lending?