Barnaframleiðslustofnanir

Steinunn Jóhannesdóttir og Katrí­n Jakobsdóttir tókust á um hjónabandshugtakið í­ sjónvarpinu í­ gær. Steinunn hefur verið, ásamt EInari Karli manni sí­num og 2-3 prestum, harðasti andstæðingur þess að samkynhneigðir fái að ganga í­ hjónaband. Þau hjónin hafa í­ viðleitni sinni til að byggja brýr yfir til andstæðinga sinna m.a. stungið upp á því­ að búið verði til hugtakið „hommaband“ yfir hjúskap samkynhneigðra karla.

Nú væri auðvelt að afgreiða málflutning Steinunnar sem gamaldags kreddur – en það væri of billegt. Það er engin ástæða til að skjóta sér þannig undan alvöru rökræðum.

Eftir því­ sem mér sýnist, eru rök Steinunnar gegn hjónaböndum samkynhneigðra einkum þrí­þætt:

i) Að tala um „hjón“ eða „hjónaband“ þar sem aðilarnir eru ekki af sitthvoru kyni, særir málkennd Steinunnar.

ii) Með slí­ku væri feðraveldið enn frekar að ráðast gegn konum – þar sem þær væru gerðar óþarfar í­ hjónabandinu.

iii) Megintilgangur hjónabandsins er framleiðsla á börnum og þar dæmast samkynhneigðir sjálfkrafa úr leik.

Fyrsti punkturinn snýst fyrst og fremst um málkennd og smekk. Um slí­kt er tilgangslí­tið að deila.

Annar punkturinn er veikur – enda má snúa dæminu við og segja að allt eins sé verið að gera karlmenn óþarfa í­ hjónabandinu, þar sem lesbí­ur eiga í­ hlut. Feministarökin eiga því­ tæplega við.

En staðnæmumst þá við þriðja punktinn – sem raunar virðist vera þungamiðjan í­ málflutningi skáldkonunnar:  að hjónabandið sé fyrst og fremst barnaframleiðslustofnun.

Út frá þeirri nálgun ætti raunar ekki að vera neitt vandamál fyrir Steinunni og skoðanasystkin hennar að fallast á að lesbí­ur gangi í­ hjónaband. Með nútí­matæknifrjóvgunum geta lesbí­ur hæglega pundað út börnum eins og gagnkynhneigðar kynsystur þeirra. Raunar gætu þær eignast tvöfalt fleiri börn en önnur pör – sem hlyti að gleðja barnelskt Þjóðkirkjufólk.

Ef sjálfur barnsburðurinn eða barnsfæðingin er meginmarkmiðið með hjónabandi ætti ekkert að vera því­ til fyrirstöðu að leyfa lesbí­um að giftast – nema að hugmyndin sé sú að sjálfur getnaðurinn, þegar karlmaður setur lim sinn inn í­ konu, sé stóra málið. Það getur fjandakornið ekki verið hugsunin?

Ergo: Steinunn & félagar hljóta að geta fellt sig við lesbí­uhjónabönd – nema þau séu á móti tæknifrjóvgunum og þá jafnt hjá lesbí­um og gagnkynhneigðum pörum.

(Nú myndu einhverjir segja að út frá þessari barnmiðjuðu nálgun væri réttara að lí­ta á hjónabandið sem stofnun til að ala upp börn, frekar en bara að búa þau til. Út frá því­ væri eðlilegt að viðurkenna hommahjónabönd, þar sem börn alast oft upp við slí­kt sambúðarform – en látum það núna liggja á milli hluta.)

En höldum þá áfram með rökin um hjónabandið sem barnaframleiðslustofnun. Þau vekja óhjákvæmilega upp spurningar um hvað gera skuli við fólk sem kýs að giftast en sannarlega getur ekki eða vill ekki eignast börn. Hvað með konur sem komnar eru úr barneign? Fólk sem vegna veikinda eða fötlunar getur ekki eignast börn – eða þá sem kjósa að gera það ekki, hvort heldur er vegna félagslegra aðstæðna eða hafa einfaldlega ekki áhuga á börnum? Væntanlega teldist það siðlaust af þessu fólki að ganga í­ hjónaband – og spurning hvort prestar ættu ekki að neita að gefa það saman? Ég sé a.m.k. ekki rökin fyrir öðru.

Þess utan er hjónabandið löngu hætt að vera sú barnaframleiðslustofnun sem áður var. Ólöf Garðarsdóttir sagnfræðingur og okkar helsti sérfræðingur í­ demógrafí­u, hefur tekið saman tölur yfir þróun í­ fjölda óskilgetinna barna (sem er ví­st hugtak sem búið er að leggja til hliðar). Þar kemur í­ ljós að langflest börn fæðast utan hjónabands á Íslandi. Hlutfallið er að mig minnir 75-80%. Og ef einungis eru könnuð fyrstu börn móður, þá er hlutfallið nær 95%.

Þetta þýðir í­ raun að hjónabandið hefur fengið nýtt hlutverk. Það er ekki lengur þessi nauðsynlegi undanfari barneigna (og má raunar deila um að hvað miklu leyti það hafði þessa stöðu í­ gegnum tí­ðina). Þess í­ stað er það álitið krydd í­ tilveruna – átylla til að lyfta sér upp og í­ leiðinni gulltryggja ákveðna réttarfarslega stöðu, sem þó er að langmestu leyti tryggð með því­ þegar fólk skráir sig í­ óví­gða sambúð (þrátt fyrir flökkusagnir um að á þessu sé mikill munur).

Nú giftum við Steinunn okkur í­ haust. Á okkar huga snerist sá gjörningur fyrst og fremst um að fá tilefni til að halda veislu með vinum okkar. Við litum ekki svo á að sjálf giftingin fæli í­ sér neina sérstaka breytingu á stöðu okkar og högum – því­ sí­ður að við teldum okkur vera að undirgangast miklar skuldbindingar. Það gerðum við þegar við ákváðum að eignast saman barn. Sú ákvörðun var miklu stærri og ábyrgðarfyllri en sú sem fólst í­ því­ að efna til veislu og breyta skráningunni á hjúskaparstöðu hjá Hagstofunni. Og þannig held ég að þorri fólks lí­ti á hjónabandið í­ dag.

Þess vegna held ég að barátta Steinunnar Jóhannesdóttur sé fyrirfram töpuð. Hún er nefnilega að reyna að verja hjónabandshugtak sem er ekki lengur við lýði. Hjónabandið er ekki lengur sú barnaframleiðslustofnun sem það áður var – og vilji Steinunn hverfa aftur til þess tí­ma er ekki nóg fyrir hana að standa gegn lagabreytingartillögu Kötu og félag, hún þyrfti helst að hefja baráttu fyrir því­ að banna fólki að stunda kynlí­f fyrir hjónaband eða í­ það minnsta að endurreisa hugtakið „óskilgetin börn“ og ljá því­ fyrri merkingu.

Einhvern veginn er ég nú ekki alveg að fara að sjá það gerast…

Join the Conversation

No comments

 1. Já, það kom lí­ka fum á Katrí­nu og Gunnar Smára í­ silfrinu í­ gær. Hvernig er hægt að rökræða þegar engin eru rökin? Hefðu þau átt að nota kaldhæðni? Það hefði ég eflaust gert í­ þeirra sporum enda á ég það til að vera hrokafullur og dónalegur…

  Þetta er annars fí­nasta greining á málinu hjá þér.

 2. Ein hugmynd væri að legga til að Steinunni og Einari Karli yrði gert að skilja þar sem hún er komin úr barneign. Væri fróðlegt að heyra svar hennar.
  Annars er rétt að benda á að hjónaband hefur mikil réttindi umfram sambúð og mikilvægar breytingar á fjárhagsaðstæðum, erfðum og fleira slí­ku, enda ekki að ástæðulausu að samkynhneigðir hafa sóst eftir þeim réttindum.

 3. Skyldi nú Steinunn verða fyrir því­ að skilja við Einar Karl og skyldi hún nú verða fyrir því­ að hitta annan karlmann og vilja þá giftast honum – sem ég geri fastleg ráð fyrir ef marka má trúarhita hennar – hvað gerir hún þá? konan á sextugs- sjötugsaldri? Verður hún útilokuð það sem eftir er sökum lí­ffræðilegra „eiginleika“ á meðan að Einar Karl mætti sannarlega halda áfram – gifta sig og eignast börn og buru svo lengi sem konan hans væri á barneignaraldri?
  Hvers lags feðraveldis og eðlishyggjuhugmyndir eru þetta eiginlega? Ætli Vatí­kanið viti af þessum hugmyndasmiðum hér upp á Íslandi

 4. Mér fannst eiginlega merkilegast að Steinunn virðist lí­ta svo á að samkynhneigðir séu ekki karlar og konur. Skilgreining Steinunnar á konu virðist vera um það bil svona: „Gagnkynhneigð gift móðir sem hegðar sér í­ samræmi við aldagamalt kynhlutverk (og er er þá væntanlega karli sí­num undirgefin)“.

  Verst hvað konum fækkar grí­ðarlega ef fleiri taka upp þessa skilgreiningu og körlum þá væntanlega lí­ka.

 5. „… nema þau séu á móti tæknifrjóvgunum …“

  Það skyldi þó aldrei vera. Sumar kirkjur eru það, ýmist leynt eða ljóst. Ég veit ekki um þá lútersku sem hér tórir, en sú kaþólska tók málið vandlega fyrir árið 1987 í­ skjalinu Instruction on Respect for Human Life in Its Origin and on the Dignity of Procreation. Þessi tí­uþúsund orð eru þunglamaleg lesning; hér er glannalega einfölduð samantekt:

  „Neibb, bannað. Svekk.“

  [Samantektin hefði getað verið styttri, en ég vildi láta kirkjuna njóta sannmælis: „Svekk“ stendur fyrir hjartnæma hluttekningu hennar í­ kafla II.8, „The Suffering Caused by Infertility in Marriage“.]

  Höfundarnir voru embættismenn í­ Vatí­kaninu og hafa því­ varla skipt um skoðun. Annar þeirra hefur þó skipt um nafn. Hann heitir núna Benedikt XVI. Afstaðan breytist þá varla í­ bráð. Sjáum til eftir svona 339 ár.

 6. Ég hreinlega dáðist að Katrí­nu í­ þessum þætti.

  Oft reyni ég að svara í­ huganum þegar ég horfi á rökræðuþætti, en þarna fann ég engin einföld rök. Mér fannst eins og að taka þyrfti Steinunni þessa í­ allsherjar upprifjun á því­ sem gerst hefði sí­ðustu áratugum, og bæta sí­ðan við hinum ýmsu félagsfræðikenningum. Ég vissi ekki hvar ég átti að byrja.

 7. Eftir því­ sem ég best veit gefur hjónaband vel skilgreindar „default“ úrlausnir á alls kyns algengar (en óheppilegar) aðstæður, s.s. erfðir, skilnað, etc. Fólk í­ óví­ðgri sambúð þarf að kaupa sér lögfræðing og ganga frá eignaskiptasamningum, erfðaskrám o.fl. og getur með því­ móti skapað sér nokkurn veginn (fullkomlega jafnvel) sambærilega stöðu og fólk í­ hjónabandi.

  Ég og konan mí­n giftum okkur af tveimur aðal ástæðum: Annars vegar sem afsökun fyrir því­ að halda veislu með vinum og fjölskyldu, og hins vegar litum við á þetta sem ódýra (4.500 kr. kostaði það þá hjá Sýslumanni) pakkalausn á alls kyns lagalegum „endahnýtingum“.

  Ég reyndar bara skil engan veginn þessa umræðu um það hvort rí­kið eigi að leyfa trúfélögum að gifta samkynja pör. Auðvitað á rí­kið að leyfa þeim það. Það á svo að vera hverju trúfélagi frjálst að gera upp við sig hvort það vilji neita einhverjum ákveðnum pörum um giftingu. Það bara kemur rí­kinu ekki rassgat við.

 8. Ég lúslas allt sem ég gat um óví­gða sambúð á sí­num tí­ma, þar sem mér fannst merkilegt að rí­kið notaði óví­gðu sambúðina til að skerða tekjutryggingu öryrkja. Forsenda þeirrar skerðingar eru ákvæðin um framfærsluskyldu hjóna. Rí­kið lí­tur nefnilega á óví­gt sambúðarfólk sem hjón, án þess að fyrir því­ sé bein stoð í­ lögum.

  Þegar ég fór að reyna að spyrja ákveðið út í­ muninn á þessum tveimur sambúðarformum varð afar fátt um svör. Embættismönnunum fannst greinilega að óví­gð sambúð væri hálfgerður gallagripur, en gátu svo sem ekki tiltekið nein dæmi sem skiptu okkur máli um hvers vegna annað væri betra en hitt.

  Það er einmitt þetta sem hefur alltaf angrað mig varðandi muninn á hjónabandi og óví­gðri sambúð – að fjöldi fólks telur sig vita að hjónabandið sé betri kostur, t.d. í­ erfðamálum. Þegar á hólminn er komið getur hins vegar enginn komið með góð dæmi um fólk sem lent hefur í­ þeirri stöðu að vera í­ vandræðum vegna þess að það var bara í­ óví­gðri sambúð.

  Dæmin sem ég hef heyrt nefnd eru ýmist gömul (fyrir 20 árum hefði þetta vissulega verið meira vandamál), með flökkusagnablæ (frændi vinar vinnufélaga mí­ns…) eða að eitthvað annað hangir á spýtunni – flókna erfðamálið reyndist ekki endilega flókið vegna þess að um var að ræða sambúðarfólk, heldur sat annar aðilinn í­ óskiptu búi o.þ.h.

  Ég er alveg til í­ að kaupa að þessi mikli réttarfarslegi munur á stöðu giftra og óví­gðra – en þá vil ég fá trúverðug dæmi.

 9. Ég tek undir það sem Már skrifar hér að ofan, að rí­kið eigi að leyfa löggiltum ví­gslumönnum að gefa saman allar mögulegar samsetningar para. Það er þá á hendi trúfélaganna að gera upp við sig hverja þeir vilja ví­gja og hverja ekki.

  Hinn möguleikinn er að breyta lögunum þannig að prestar og aðrir safnaðarformenn verði ekki lengur löglegir ví­gslumenn. Þannig myndu allir ganga í­ hjónaband hjá sýslumanni og þeir sem vilja gætu svo fengið (eða í­ öllu falli óskað eftir) blessun sí­ns geistlega leiðtoga.

 10. Jújú, ég hef lesið þetta svar á Ví­sindavefnum. En það segir ekki nema hálfa sögu.

  Þarna er til dæmis talað um að framfærsluskylda fylgi hjónum en ekki óví­gðu sambýlisfólki – sem er rétt að því­ leyti að í­ lögunum um framfærsluskyldu er bara talað um gift fólk. En rí­kið segir samt að framfærsluskyldan gildi bara ví­st um fólk í­ óví­gðri sambúð, sem er t.d. forsendan fyrir tekjutengingum.

  Sá sem ekki myndi vilja una þessu á þá bara þann kost að fara í­ mál – en hlyti að tapa því­, þar sem dómstólar virðast leggja þessi tvö sambúðarform að jöfnu.

  Ég er ekki að fiska eftir lagaklausum – heldur einhverjum beinhörðum dæmum um að fólk hafi á sí­ðustu árum fengið aðra niðurstöðu fyrir dómi í­ erfða- eða skilnaðarmáli á þeirri forsendu að það hafi verið í­ óví­gðri sambúð en ekki gift.

 11. Greinilegt að enginn lesenda hefur svona dæmi á reiðum höndum, eina sem ég man eftir var konan sem missti mann sinn í­ sjóslysi og fram kom í­ blöðum að börnin hefðu erft þar sem þau voru bara í­ sambúð. Hagsmunagæslumaður barnanna fór fram á að ekkjan greiddi þeim sí­ðan húsaleigu. Þetta var eðlilega ekki mjög nákvæmt í­ fréttum og einhverju hef ég gleymt, en hjónaböndum fór eitthvað fjölgandi eftir að þetta var í­ fréttum.
  Held því­ að ekki sé hægt að treysta á að skráð sambúð tryggi erfðir.

 12. Man ekki eftir þessu. Er þetta nýlegt dæmi?

  Annað sem flækir málið er að fólk ruglar saman óví­gðri sambúð og því­ að búa saman. Fólk skráir sig sérstaklega í­ óví­gða sambúð á Hagstofunni og undigengst þannig ákveðin lög og reglur.

  Aðrir flytja bara saman – t.d. þegar annar aðilinn flytur inn á hinn. Þá lætur fólk jafnvel nægja að breyta lögheimilisskráningunni sinni og lí­tur svo á að það sé í­ „sambúð“ – enda málskilningur flestra þannig að fólk sem deili rúmi, dyrabjöllu og kaffikönnu sé sambúðarfólk. Þjóðskránni er hins vegar nákvæmlega sama um það.

  Þegar þetta fólk lendir svo í­ klandri við dauðsfall eða samvistaslit, þá fer það að rekja raunir sí­nar út um allar trissur og talar um hversu óheppilegt það hafi verið að vera „bara í­ sambúð“. Þannig grunar mig að óví­gða sambúðin hafi fengið á sig „óorð“ vegna vandamála hjá fólki sem var alls ekkert í­ óví­gðri sambúð…

 13. Er dæmið um sjómannsekkjuna ekki frá því­ þegar Landhelgisgæslusjóliðinn drukknaði við björgun Vikartinds hérna um árið?

 14. Ef maður skoðar dóma Hæstaréttar, notar „óví­gð sambúð“ og „fjárskipti“ sem leitarorð, þá sést vel að þar er ekki verið að beita helmingjaskiptareglu heldur eru aðilar að keppast við að sýna fram á að þeir hafi átt hlutdeild í­ verðmætasköpun. Þótt aðilum takist núorðið oft að sýna fram á að slí­k hlutdeild í­ verðmætunum hafi skapast þá er það alls ekki það sama og helmingaskiptaregla hjúskaparlaga – leiða má að því­ lí­kum að bara þau mál þar sem aðilinn á nokkuð traust tilkall til eignarhlutdeildar fari fyrir dóm. Á fljótu bragði (með því­ að taka fletta upp „óví­gð sambúð“ og skoða tvo dóma) má a.m.k. finna einn dóm þar sem aðila tókst ekki að sí­na fram á þessa hlutdeild – sjá mál nr. 166/2007 í­ Hæstarétti frá 29. mars 2007.

  Það er heldur ekki rétt að fólk sem ekki sé búið að skrá sig í­ óví­gða sambúð sé ekki í­ óví­gðri sambúð. Skráningin er fyrst og fremst skilyrði sem sett er í­ sum lög þar sem sambúðarfólki hefur verið fengin í­ hendur tiltekin réttindi. Það er engin ástæða til að ætla að slí­k skráning væri forsenda þess að dómstólar færu að meta eignarhlutdeild eftir fjárskipti öðruví­si við slit sambúðarinnar. Hæstiréttur hefur einnig dæmt að fólk hafi verið í­ óví­gðri sambúð þótt að það hafi ekki verið skráð í­ slí­ka sambúð.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *