Lenti í nokkrum viðtölum í gær vegna vopnasalafundarins. Til stóð meira að segja að ræða málið í Kastljósinu – þar sem búið var að hafa upp á manni til að verja þessa náunga, en því var ýtt út vegna verðsamráðsins í súpermörkuðunum.
Maður þarf ekki að lesa lengi um þetta fyrirtæki til að sjá hversu afleit sending þetta er. Efst á afrekaskránni er einhver stærsti og geggjaðasti vopnasölusamningur sögunnar – til Sádi Arabíu.
Sádi Arabía er einræðis- og trúarofstækisríki – en af því að þeir eru núna skilgreindir sem „okkar brjálæðingar“ mega Vestræn fyrirtæki selja þeim flugskeyti, skriðdreka og orrustuþotur. Jafnvel sömu fyrirtæki og voru hvött til að selja írönum og írökum á sínum tíma.
Hverjar eru líkurnar á að vopnin sem þetta fyrirtæki er að selja Sádi Aröbum núna verði notuð í næstu eða þarnæstu stórstyrjöld í Miðausturlöndum? Þegar og ef það gerist verða menn að gera það upp við samvisku sína í hvoru liðinu þeir vildu hafa verið: í þeim hópi sem barðist gegn vopnafyrirtækjunum eða hinum sem fannst ómögulegt að fetta fingur út í fína menn sem eyddu peningum á íslenskum hótelum.