Það gerist nú ekki oft að maður stendur sig að því að hrósa viský-rekkanum í íTVR – en nú er tilefni til þess. Úrvalið af góðu viskýi hefur ekki verið betra í háa herrans tíð. En þar sem slíkt ástand varir aldrei lengi í senn hvet ég fólk til að nota tækifærið og hamstra!
Þrjú Islay-viský er vel ásættanlegt. Þarna er Ardbeg – sem er vitaskuld toppurinn og skyldueign – en auk þess bæði Bunnahabhain og Bruchlaiddich. Ég hef fengið pata af því að með nýja árinu verði önnur týpa af síðarnefndu tegundinni sett í hillurnar, sem er sögð 7 ára (blanda úr fleiri en einum árgangi). Það er sælgæti.
Auðvitað ættu Lagavullin, Laphroaig og jafnvel Bowmore líka að vera til – en miðað við það sem maður er farinn að venjast, þá er þetta furðugott.
Tvær tegundir af Highland Park eru á boðstólum, 12 og 18 ára. Macallan og Tallisker eru líka til. Góður viskýskápur getur eiginlega ekki verið án þessara þriggja tegunda.
Ledaig er komið aftur í hillurnar. Það er fínt, en ekkert dúndur á borð við sumt af því sem talið hefur verið upp. – Fyrir blönduliðið er Black Bottle fínn fjölmöltungur. Gott ef hitt Orkneyjaviskýið, Scapa, er ekki til líka. Það er ágætt.
Hvað vantar? Jú, það væri fínt að hafa Springbank og Júru svo eitthvað sé nefnt…
En fariði nú út í búð börnin mín og kaupið ykkur nokkrar viskýflöskur til að góðu, góðu birgjarnir sjái að það sé rífandi bissness í að sjá okkur fyrir veigum.