Ekki hafði ég hugmynd um að hvítvoðungar væru klæddir í bleik og blá föt á fæðingardeildinni. Sú var tíðin að heilu stórfjölskyldunum var smalað í heimsókn á fæðingadeildirnar – en það er liðin tíð og þangað kemur enginn nema allra nánustu.
Og það er svo sem ekki eins og neinn stoppi lengur á fæðingardeildinni. Ef allt gengur að óskum er fólki skóflað heim með loforðum um aukaþjónustu í skiptum fyrir að losa sjúkrarúmin hratt og örugglega.
Einhvern veginn vorum við komin heim með Ólínu áður en maður var búinn að ná áttum – hvað þá að ég geti fyrir mitt litla líf rifjað upp hvernig fötin hennar voru á litinn. Ætli maður hafi ekki verið of upptekinn við að hlusta eftir andardrætti og hafa áhyggjur af því að brjóta óvart agnar-agnarlitlu puttana…