Ef marka má bloggheima, veður vonda fjölmenningarsamfélagið uppi og hávær minnihluti kúgar meirihlutann til að láta af gömlum og góðum siðum. Karl biskup mætir í fréttaviðtöl, smeðjulegur eins og bílasali, til að kveinka sér undan því að undirmenn hans fái ekki að fara inn í leikskólana að kenna bænir.
Hvaða vitleysa er þetta eiginlega?
Hvaða hefð er fyrir því að kirkjan sé með puttana í skólastarfi? Þegar ég var gríslingur gekk ég fyrst í leikskólann Valhöll og síðar Grænuborg. Þar sáust aldrei neinir klerkar. Það var aldrei farið í kirkju og sjálfsagt hefur engum komið slíkt til hugar.
Á Melaskólanum gegndi sama máli. Skólinn stendur beint á móti Neskirkju – það tekur mínútu að hlaupa á milli. Aldrei var samt farið með okkur þangað yfir. Aldrei komu prestar, djáknar, abbadísir – eða hvað þetta lið heitir nú – til að ræða við okkur. Ég skal ekki sverja fyrir að einhver hafi rekið inn nefið í fimm mínútur til að auglýsa sunnudagaskólann – en það var sami aðgangur og skátarnir og íþróttafélögin fengu.
Kristinfræði voru á dagskrá öll árin. Einstaka kennari var áhugasamur um þá grein, en flestum leiddist – eða stálust til að nota kristinfræðitímana í að vinna upp kennslustundir í öðrum greinum sem fallið höfðu niður – eða til að sjá um ýmis verk tengd umsjónarkennslu bekkjarins.
Ég held að flestir af minni kynslóð hafi svipaða sögu að segja. Við höfðum einfaldlega sáralítið af kirkjunni að segja í öllu okkar skólastarfi. – Tilburðir í þá átt að koma prestum og djáknum inn í leikskóla og barnaskóla eru því nýir af nálinni og hafa einkum átt sér stað á síðustu 5-6 árum eða þar um bil.
Fólk ætti að hafa þetta í huga í allri þessari umræðu. „Vonda fjölmenningarsamfélagið“ og „háværi minnihlutinn“ eru ekki að reyna að banna gamla og gróna siði, heldur vinda ofan af þróun sem er nýbyrjuð – og virðist fremur standa í samhengi við offramleiðslu á guðfræðingum en sem viðbrögð við kröfum foreldra eða skólastjórnenda.