Hún var sérkennileg sjónvarpsfréttin í kvöld af hrelldum íbúum fjölbýlishúss við Austurbrún. Rumpulýður virðist hafa farið um gangana, sparkað í hurðir, hent frá sér logandi sígarettum og látið dólgslega. Sögunni fylgdi að óreglufólk byggi í húsinu.
Þetta slæma ástand var rakið til þess að enginn húsvörður væri í húsinu.
Þegar leið á fréttina var svo rifjað upp að kona hefði látist og verið dáin í íbúð sinni í nokkra daga. Allt var þetta borið undir formann Félags eldri og embættismann frá borginni: hvort það væri ekki algjör skandall að enginn væri húsvörðurinn í ljósi alls þessa?
Ég verð að viðurkenna að mér finnst samhengið nú ekki augljóst.
Hugmynd mín um húsverði er karl (eða kona) með stóra lyklakippu sem veit hvar rafmagnstaflan er, kann að skipta um öryggi, saltar hálkublettinn fyrir framan útidyrahurðina og man símanúmerið hjá lyftuviðgerðarmanninum. – Þessi staðalmynd húsvarðarins er ekki öryggisvörður sem snýr niður sígarettureykjandi hávaðaseggi.
Nú væri örugglega mjög þægilegt fyrir íbúa hússins að hafa húsvörð í fullu starfi og með búsetu í blokkinni. Úr því að þetta er 72 íbúða hús mætti slumpa á að kostnaðurinn við það yrði svona 60 þúsund á ári pr. íbúð. (Miðað við c.a. 4,25 milljónir í laun og launatengd gjöld + kostnaður við húsvarðaríbúð.)
En hvernig á slíkur húsvörður að koma í veg fyrir rúmrusk? Er hugmyndin kannski að ráða varðmann frá Securitas?
Og enn verður málið undarlegra þegar farið er að flækja inn í það sorglegu dauðsfalli – eða öllu heldur, dapurlegri aðkomu að látinni manneskju. Hvers vegna á það að vera húsvarðarmál að banka uppá hjá öllum íbúum á hverjum degi og/eða sannreyna með öðrum hætti að þeir séu lifandi?
Auðvitað finnst okkur það ömurlegt þegar fólk deyr eitt. Við viljum jú öll deyja í hárri elli, södd lífdaga í hlýju rúmi með fjölskylduna allt um kring. En þannig er það bara ekki alltaf.
Þegar fréttir berast af svona atburðum, eru viðbrögð fólks furðu oft á þá leið að kerfið hafi brugðist – að ríkið, borgin eða bara einhver annar hafi átt að búa til eitthvað kerfi eða tæknilausn sem kæmi í veg fyrir að svona lagað geti gerst. Ég á bágt með að fallast á þær kröfur.
Auðvitað geta tæknilausnir stundum komið að gagni. Öryggisfyrirtæki bjóða upp á neyðarhnappa og það eru alveg rök fyrir því að ríkið bjóði sem flestum upp á slíka þjónustu – jafnvel ókeypis. Sumir vilja hins vegar ekkert af slíkum hnöppum vita – og það verður að virða.
En þegar fólk deyr af eðlilegum orsökum án þess að það uppgötvist í nokkra daga, er ekki við neina öryggishnappa að sakast. Því þéttara sem félagslegt öryggisnet fólks er, því styttri tími líður þar til andlátið uppgötvast. Sumir geta legið í viku – en aðrir uppgötvast innan fárra klukkutíma.
Og það er líka rangt að draga sjálfkrafa þá ályktun að fólk sem liggur dáið í marga sólarhringa heima hjá sér hljóti að vera vinasnautt og óhamingjusamt. Fjölmargir lifa sínu lífi án þess að þess að vera í daglegu sambandi við tiltekinn ættingja eða vin.
Þó að sveitarfélög/ríki/félagasamtök sjái fólki fyrir húsnæði á hagstæðum kjörum á ekki að fela í sér að þau taki fulla ábyrgð á lífi þess og dauða. Það má jafnvel færa fyrir því rök að það geti falist í því visst frelsi að geta hagað lífi sínu á þann hátt að geta dáið einn og óafskiptur… Því hinn valkosturinn er sá að eitthvert opinbert apparat ákveði að daginn sem tilteknum aldri er náð, sé litið á mann sem dauðvona á hverri stundu. Er hægt að hugsa sér meiri sjúkdómsvæðingu en það?