Fórum á sýningu Þjóðleikhússins á Ivanov í kvöld. Ég skemmti mér vel – en það er ekkert að marka, ég ver nefnilega svo sjaldan í leikhús að ég heillast jafnvel af billegustu trixunum.
Er enn að melta sýninguna. Sumt var mjög vel gert. Hilmir Snær var mjög góður og Ólafur Darri kostulegur í sínu hlutverki.
Fannst samt hálfsérkennilegt hvernig uppfærslan stökk á milli þess að vera klassískt dramatískt leikhús yfir í sketsa-grín. Þótt leikkonur slái í gegn í gamanþáttum í sjónvarpi er alveg óþarfi að láta þær endurtaka sjónvarpskarakterana á fjölunum.
En jújú – ég er bara sáttur.
# # # # # # # # # # # # #
Næsta leikhúsupplifun verður væntanlega Skoppa og Skrítla með barninu. Hún mun líklega þora að horfa á þær, en hún er ótrúleg skræfa blessunin. Við gáfum henni Dýrin í Hálsaskógi í jólagjöf.
Hún hélt skelfingu lostin á mynddisknum – en labbaði svo með hann fram á gang og lagði hann á gólfið. Ég spurði hvort hún vildi að ég setti diskinn hátt upp í hillu og hún kinkaði kolli. Það reyndist þó ekki nóg og hún varð ekki róleg fyrr en diskurinn var kominn upp í lokaðan skáp.
Sumir eru bara hræddir við Mikka ref.
# # # # # # # # # # # # #
Flott hjá Framstelpunum að komast í úrslit í skúnkabikarnum – og þá sérstaklega að vinna á aukakasti á lokasekúndunni. Það sér maður ekki á hverjum degi.
Undir eðlilegum kringumstæðum væri maður ekki spenntur fyrir úrslitum deildarbikarsins, en andstæðingarnir eru jú Valur… Kannski ég dragi pabba með mér í Höllina?