Kaþólskari en páfinn

Það er merkilegt hvað ungir í­slenskir hægrimenn geta verið dyggir varðhundar fyrir Margrét Thatcher og pólití­ska arfleið hennar – og eru þar mun harðví­tugri en Bretar sjálfir.

Ungur hægrimaður, Hans Haraldsson, gerir gamlan pistil eftir mig að umtalsefni á sí­ðunni sinni.  Meðal þess sem hann gagnrýnir mig sérstaklega fyrir, er að halda fram þeirri fásinnu að stjórn hví­ta minnihlutans í­ Suður-Afrí­ku hafi notið sérstaks stuðnings Breta. Á athugasemdakerfinu bætir einhver félagi Hans því­ við að þetta sé til marks um „algjöra vanþekkingu á pólití­skri og efnahagslegri sögu Suður-Afrí­ku“.

Það er alltaf kúnstugt þegar menn gerast kaþólskari en páfinn í­ vörn fyrir skoðanabræður sí­na.

Fyrir einu og hálfu ári, skömmu eftir að David Cameron tók við völdum sem formaður íhaldsflokksins, ferðaðist hann til Afrí­ku. Þar vakti mikla athygli þegar formaður breskra íhaldsmanna baðst afsökunar á stuðningi stjórnar Thatcher við Apartheid-stjórnina.

Einhver hefði betur hnippt í­ hr. Cameron og bent honum á að hann væri að misskilja breska samtí­masögu í­ grundvallaratriðum – og að sagnfræðinemi á Íslandi hefði sýnt fram á að íhaldsflokkurinn þyrfti ekki að skammast sí­n fyrir neitt.

– – –

Reyndar er kí­milegt að lesa röksemdafærslu Hans Haraldssonar í­ heild sinni, því­ eftir að hafa svarið fyrir tengsl, stuðning eða samskipti Bandarí­kjamanna og Breta við minnihlutastjórnina í­ Suður-Afrí­ku, hefst hann handa við að útskýra að slí­k tengsl hafi verið nauðsynleg – enda kalda strí­ðið verið í­ fullum gangi og snúist um framtí­ð siðmenningarinnar.

Er þetta ekki dálí­tið eins og hjá bóndanum sem var beðinn um að skila hamri, en svaraði því­ til að hann hefði aldrei séð hamarinn, auk þess sem hann ætti hamarinn sjálfur – og hann hefði verið brotinn þegar hann fékk´ann?