Íslendingar eru of duglegir við að stofna söfn. Fjöldi safna á Íslandi er útúr korti miðað við íbúafjölda – reyndar lagast hlutfallið aðeins ef tekið er tillit til þess hversu margar sýningar eða „setur“ eru ranglega kölluð söfn. Hugtakið safn er nefnilega skilgreint fyrirbæri og felur meðal annars í sér kröfu um að verið sé að varðveita muni eða minjar af einhverju tagi.
Þannig er sögusýningin í Perlunni ekki safn, þótt hún sé vissulega mikilsverð sýning sem fjöldi fólks heimsækir.
En söfnin á Íslandi eru ívið of mörg, sem hefur ýmis vandamál í för með sér. Með of litlum einingum er hætt við því að ekki náist nægileg samfella í safnrekstrinum. Einhver eldhuginn stofnar safn, en þegar hann lætur af störfum eða deyr, er enginn sem getur tekið við kyndlinum og söfnin ýmist tvístrast eða drabbast niður.
Almennt séð er því ástæða til að vera á varðbergi þegar hópur manna kemur fram og vill fá að stofna safn, fá húsnæði og komast á fjárlög.
Öðru máli gegnir um Leikminjasafn Íslands, sem nú vill fá inni í Laugavegshúsunum umdeildu. Hópurinn sem stendur að Leikminjasafninu er stór og hefur á undanförnum árum sýnt mikinn dugnað varðandi söfnun muna og miðlun.
Laugavegshúsin virðast í fljótu bragði vera nokkuð þröng og óaðgengileg fyrir safnrekstur – en á hitt ber að líta að staðsetningin er góð. Safnið verður helst að vera steinsnar frá helstu leikhúsum þjóðarinnar (Þjóðleikhús, Óperan) og nálegðin við fyrirhugaðan Listaháskóla er ótvíræður kostur.
Ef borgin og menntamálaráðherra geta komið sér saman um að deila kostnaðinum við endurbyggingu og látið Leikminjasafninu húsnæðið í té án leigugjalds, held ég að komin væri lausn sem allir ættu að geta sætt sig við.
# # # # # # # # # # # # #
Nú eru sumarferðabæklingarnir farnir að streyma inn um lúguna. Veit einhver lesandi þessarar síðu um ferðaskrifstofu sem leigir út sumarhús í Danmörku (á Fjóni frekar en Jótlandi)?