Það er úr mér allur vindur.
Fór síðdegis upp á Höfða til að ná í póstsendingu. Þangað þurfti ég að fara vegna þess að sending með barmmerkjaefni væri komin frá Bandaríkjunum og það þyrfti heimild mína til að opna pakkann í leit að reikningi.
Þegar loksins var komin röðin að mér fékk ég þau svör að enginn reikningur væri í pakkanum. Þetta þóttu mér skrítnar fréttir, enda ekki í samræmi við fyrri viðskipti við merkjaframleiðandann.
Ég náði að prenta út visa-yfirlitið úr heimabankanum og staðfestingu frá þeim bandaríska þess efnis að sendingin væri farin af stað. Hvorugt þessara skjala sannaði mikið, en samt fékk ég sendinguna afgreidda.
Hún reyndist vera í tveimur kössum. Ofan á báða þeirra búið að festa eyðublað merkt bandaríska póstinum, þar sem verð sendingarinnar og flutningskostnaður var nákvæmlega tíundaður. Þegar ég opnaði svo annan kassann blasti við mér afrit af reikningnum.
Hvað getur maður sagt?
# # # # # # # # # # # # #
Ég heyrði ekki betur en að fréttakona á Stöð 2 hafi áðan sagt að mótmælin í Ráðhúsinu væru þau mestu í sögu borgarstjórnar.
Annað hvort var þetta merki um ótrúlega fáfræði eða aðdáunarverða sagnfræðilega nákvæmni – því vissulega gerðist Gúttóslagurinn á þeim tíma þegar BORGARstjórn Reykjavíkur nefndist BÆJARstjórn.