Með koltjöru í fötu…

Þegar ég var á fyrsta og öðru ári í­ gaggó, reyndi ég að máta mig í­ listaspí­ruhlutverkinu. Eitthvað bögglaðist maður við að skrifa af ljóðum og lesa framúrstefnulegar ljóðabækur eftir skuggalega náunga, sem voru súrrealistar og ortu blóði drifin kvæði.

Ég lét nokkrum sinnum draga mig á kvikmyndasýningar í­ Mí­r. – Og einu sinni vann ég peningaverðlaun við fjórða mann fyrir myndverk/gjörning á einhverri menningarhátí­ð unga fólksins. Verkið reyndi helst á þeffæri áhorfenda.

Á sí­ðasta ári í­ Hagaskólanum datt gjörsamlega botninn úr þessum listamannsgrillum mí­num. Ég lagði allt þetta dund á hilluna og breytti lestrarvenjum mí­num allverulega. Það ár var ég reyndar farinn að umgangast talsvert strákaklí­ku sem var árinu yngri og innihélt Palla Hilmars, Úlf Eldjárn, Ragga Kjartans, Þorlák Einarsson o.fl. – Þeir voru á bólakafi í­ listamannagí­rnum, en mér tókst að leiða það hjá mér og talaði bara við þá um pólití­k í­ staðinn.

Það er lí­klega vegna þess hvað ég losnaði snemma við listamannabakterí­una að mér er fyrirmunað að skilja boðskapinn hjá anarkistahópnum sem málaði með svörtu yfir listasýningu í­ Þjóðarbókhlöðunni og sem sagt var frá í­ tí­ufréttum í­ kvöld

Verkið sem um ræðir (og er ví­st hluti af MA-verkefni) hljómaði reyndar ansi mikið eins og samkvæmisleikur á einhverju hópeflisnámskeiðinu – þar sem gestir og gangandi áttu að skrifa eitthvað frá eigin brjósti um brottför hersins. Þetta heitir ví­st að koma af stað „hugflæði“…

Nema hvað – að mati anarkistanna er fólk upp til hópa fáráðar sem skilja ekki raunverulegar ástæður strí­ðs og þess vegna er þarf að hertaka listaverkið og mála það svart til að sýna fram á hræsnins. Það var einhvern veginn svona…

Sanleiksflytjendurnir með koltjöruna birta svo mynd af sér við málningarstörfin – en hylja andlitin.

Ég á óskaplega bágt með að sjá snilldina í­ þessu. Hver er broddurinn? Hvað var það við útskriftarverkefni fjölmiðlanema í­ Háskólanum sem kallaði á þessi viðbrögð? Hvert er rökrétt næsta skref á eftir þessu? Að mála næsta strætóskýli svart til að afhjúpa hræsni og blindu einkabí­lismans? Hvað veit ég…

Æi, þetta er bara eitthvað svo aumt.

(Viðbót kl. 8:55 – málningarteymið mun ví­st hafa ákveðið að koma fram undir nafni og hefur birt ljósmyndirnar aftur án þess að fela andlitin. Sé þó ekki að það breyti afstöðu minni til málsins í­ neinum meginatriðum.)