Enn og aftur sannast að ég skil ekki efnahagsmál.
Fyrir nokkrum mánuðum voru það stórkostlegar fréttir að gamli Búnaðarbankinn ætlaði að kaupa banka í Hollandi.
Núna eru það álíka góðar fréttir að hætt hafi verið við kaupin.
Vísir fræðir okkur um það í dag að: „Nú stendur Kaupþing hinsvegar eftir nokkuð sterkt á svellinu. Það að hætt hafi verið við kaupin þýðir að Kaupþing er með góða lausafjárstöðu, hlutir í bankanum eru á uppleið og skuldabréfaálagið hefur þegar lækkað um 125 púnkta í morgun.“
Ókey… í anda þessarar hagfræði lýsi ég því hér með yfir að fjölskyldan á Mánagötunni ætlar að kaupa Laugavegshúsin þegar Reykjavíkurborg mun setja þau á sölu. Þessi metnaðarfullu áform munu vekja aðdáun greiningadeilda og vera talin til marks um styrka stöðu heimilisbókhaldsins.
Eftir hálft ár munum við svo tilkynna að við séum hætt við að kaupa húsin – sem verður ekki síður tekið með húrrahrópum, enda höfum við þá sparað mörghundruð milljónir og þar með reddað skulda- og lausafjárstöðunni. Skothelt plan!