Ég reyni að leiða það hjá mér þegar Egill Helgason rífst við Vantrúarseggi.
Ég reyni líka að leiða það hjá mér þegar hann rífst við Nýhil-gengið.
Ekki vegna þess að ég viti ekki með hvorum aðilanum ég hafi samúð – heldur vegna þess að lífið er of stutt til að fylgjast með rifrilfum annars fólks á netinu…
…samt…
…það er einn nöttarinn á síðunni hans Egils, sem er með honum í liði.
Og í hvert sinn sem múslima-umræðan fer í gang skrifar hann efnislega sama innleggið: Hversu margir arabar hafa fengið nóbelinn? – Og svarar sér í leiðinni, e-ð á þessa leið: fjórir, þar af þrír „friðar“verðlaun.
Þetta er mikil rökvísi.
Ef fjöldi Nóbelsverðlauna miðað við höfðatölu væri mælikvarðinn á gæði trúarbragða ættum við öll að gerast gyðingar. Gyðingdómurinn og trúleysi (sem er líklega langefst á listanum) hafa væntanlega yfirburðarstöðu meðal lífsskoðana heimsins, ef Nóbels-mælikvarðinn er notaður. Kristindómurinn á ekki séns.
En er það áfellisdómur yfir hinum múslimska heimi hversu fáir nóbelsverðlaunahafar koma þaðan? Er það e.t.v. sönnun fyrir því hversu lítilsigld trúarbrögðin eru?
Tja, spyrjum þá frekar:Â hversu margir Nóbelsverðlaunahafar koma frá Suður-Ameríku, 400 milljón manna meginlandi þar sem þorri fólks er kaþólskt? Niðurstaðan er ekki glæsileg. En felst í því áfellisdómur yfir kaþólsku? Nei, vitaskuld ekki. Verðlaun af þessu tagi eru vitaskuld stéttarbundin. Þjóðir sem ekki framleiða háskólaborgara í kippum eiga einfaldlega ekki séns.
Þegar við híum á þjóðir þriðja heimsins fyrir að standa okkur að baki í nútímavísindum ættum við að hafa þetta í huga.