Lögreglan og hryðjuverkamennirnir

Pistill Kolbeins um hryðjuverk, sem ví­sað var á í­ færslunni hér að neðan, er góður. Hryðjuverk eru stórkostlega ofmetin ógn – einkum meðal í­búa Vesturlanda, sem hafa fremur ástæðu til að óttast hnetuofnæmi en sprengjuárásir vondra manna.

En ótti þessi er að mörgu leyti skiljanlegur ef hafður er í­ huga allur sá áróður sem á okkur dynur – ekki hvað sí­st frá lögregluyfirvöldum.

Hversu oft höfum við ekki mátt horfa upp á það á sí­ðustu misserum að yfirvöld láta almenning hlaupa aprí­l með æsilegum tilkynningum um að tekist hafi að fletta ofan af e-u hryðjuverkasamsærinu sem kostað hefði þúsundir manna lí­fið? Jafnframt er þá lýst í­ smáatriðum hvernig staðið hafi til að framkvæma ódæðið og tekið fram að grí­ðarlega umfangsmikil og tí­mafrek rannsókn hafi orðið til að afstýra hryðjuverkinu – og að þetta sé enn ein sönnun þess að lögreglan og leyniþjónustur þurfi enn meiri heimildir og fjármuni.

Og hvað svo?

Hversu oft hefur það ekki gerst að fáeinum dögum eftir hinar miklu handtökur sé föngunum sleppt einum af öðrum – sumir hankaðir fyrir smáglæpi eða reknir úr landi fyrir brot á útlendingalögum. Þessar stórkostlegu lögreglurannsóknir megna ekki að enda með kæru. Enginn glæpur sannast. Enginn hlýtur dóm.

Nú sí­ðast virðist dönsku lögreglunni hafa tekist að draga heimsbyggðina á asnaeyrunum með því­ að tilkynna hróðug að tekist hefði að afstýra morði á skopmyndateiknara. Nú kann vel að vera að um raunveruleg áform hafi verið að ræða – en allt í­ framvindu málsins bendir til að einu sinni, einu sinni enn hafi yfirvöld tekið að sér hlutverk æsifréttablaðamannsins. Ég verð sannast sagna afar undrandi ef málið ratar alla leið fyrir dómara.

Það mun þó engin áhrif hafa – því­ þegar hryðjuverkafárið er annars vegar, virðast fæstir hafa nokkurn áhuga á að læra af reynslunni. Sama fólk og tjáir sig fjálglega um hin meintu morðáform, mun bregðast nákvæmlega eins við næst þegar einhver leyniþjónustan tilkynnir um frægan sigur í­ strí­ðinu gegn hryðjuverkum. Því­ er nú verr og miður.