Skilja eða skilvinda

Maraþon-svarhalinn við sí­ðustu Gettu betur-færslu er kominn upp yfir 40 athugasemdir. Nördunum hefur greinilega verið sleppt lausum. Umræðurnar eru raunar komnar út í­ tóma vitleysu, vegna mistaka sem augljóslega eru fljótfærnisleg innsláttarvilla. Þannig gerist bara.

En Steinþór Helgi, gamla Borgarholtsskólastjarnan, vill draga mig meira inn í­ umræðuna og spyr:

„Af hverju tjáir helsti sagnfræðingur þjóðarinnar um tæki og tól sig ekki um skilvindi/skilju? Stebbi? Man að þú lentir í­ svipuðu atviku í­ keppni okkar Borghyltinga gegn MH, þegar spurt var um taðkvörnina en þú gafst okkur rétt fyrir að segja einfaldlega ,,kvörn”.“

Humm…

Á fyrsta lagi er ég enginn tækjasérfræðingur – verð þó að segja að út frá minni málkennd er eiginlega út í­ hött að kalla mjólkurskilvindu „skilju“. En þetta tengist þó klassí­sku vandamáli spurningahöfunda – sem ég hef vissulega lent í­ sjálfur.

Spurningakeppni eins og Gettu betur hefur tilhneigingu til að snúast ansi mikið um höfuðborgir og kónganöfn. Það gerir það að verkum að keppnin fær á sig stimpil fyrir að ganga bara út á fánýtan fróðleik sem ungmenni leggja á minnið. Vegna þessa er talsverður þrýstingur á að hafa með spurningar um „hagnýtari“ hluti – verklag, verkfæri o.þ.h. Þannig hafa skólastjórar í­ verknámsskólum hvatt til þess að reynt sé að leggja meiri áherslu á slí­kt.

Þessar spurningar reynast hins vegar mestu gallagripirnir þegar á hólminn er komið.

Kosturinn við að spyrja um sérnafn er sá að yfirleitt kemur bara eitt svar til greina. Ef spurt er: „hvernig er þetta tæki notað?“ eða jafnvel „hvað heitir það?“ geta málin orðið flóknari.

Dómari semur t.d. spurningu tengda bí­lum, sem hann telur óskaplega sniðuga: sýnir mynd af vatnskassa og spyr hvað þetta sé. Honum til skelfingar byrja keppendurnir að hósta og stynja, áður en þeir aula út úr sér einhverju í­ lí­kingu við: „uuu… þetta er dunkur – svona fyrir vatn eða vökva, já – þetta er svona til að kæla… eins og er í­ bí­lum…“

Hvað gerir dómarinn þá? Ef hann gefur rétt, á þeirri forsendu að keppendurnir átti sig á því­ hvað um sé að ræða – trompast hitt liðið af því­ að orðið „vatnskassi“ kom ekki fram. Ef dómarinn segir hins vegar: „nei, því­ miður – þið urðuð að segja vatnskassi“, þá getur hann treyst því­ að daginn eftir verður fjöldi fólks búinn að hringja í­ Þjóðarsálina til að benda á að á Austurlandi sé þetta alls ekki kallað vatnskassi og að orðanefnd bí­lgreinasambandsins gefi upp átta mismunandi orð yfir þetta fyrirbæri.

Það er nefnilega alltaf hættulegt að biðja um ákveðið heiti á hlut sem hefur ekki sérnafn. Þar skiptir ekki máli hvort um er að ræða vatnskassa, skilvindu – nú eða taðkvörn…

Tökum taðkvörnina alræmdu sem dæmi. Þar var ég að skoða vef Búvélasafnsins á Hvanneyri, staðráðinn í­ að finna sniðuga spurningu um búvél og plögga þetta skemmtilega safn í­ leiðinni. Á sí­ðunni var liðurinn „græja vikunnar“ sem var mynd af búvél ásamt upplýsingum. Þar var forkostuleg mynd af kvörn til að mylja niður dýraúrgang – taðkvörn.

Ég var ekki seinn á mér að semja spurningu og biðja Andrés Indriðason um að redda góðu eintaki af myndinni. Á huganum gerði ég ráð fyrir að liðin myndu berjast um bjölluna og svo kæmi annað hvort út úr þessu kostuleg röng ágiskun eða flottur fyrirlestur um áburðardreifingu fyrr á öldum… Spurningin átti lí­ka að hafa fræðslugildi fyrir áhorfendur heima í­ stofu – því­ þar gæti komið fram að Íslendingar byrjuðu miklu seinna að nota húsdýraáburð en flestir halda. Sem sagt: voða sniðugt.

Nema hvað – þegar spurningin er borin upp í­ keppninni byrja keppendurnir að fimbulfamba og umla svo að þetta sé kvörn. Og þá áttaði dómarinn sig á því­ að hann væri í­ vondum málum.

Auðvitað var þetta kvörn – kvörn til að brytja niður dýraúrgang í­ áburð. Hvort hún væri kölluð taðkvörn, áburðarkvörn eða bara kvörn, hlaut að fara eftir landsvæðum og tí­mabilum. Tæki og tól eiga sér sjaldnast eins skýr sérnöfn og bí­ómyndir eða manneskjur.

Fyrsta hugsunin var: „Af hverju í­ andskotanum sýndi ég ekki tækið og spurði: hvað var malað í­ þessari kvörn?“ – Hér voru tveir kostir og báðir vondir. Annar að gefa rétt á þeirri forsendu að auðvitað væri þetta bara kvörn og þótt ég hefði upphaflega hugsað mér að fá svar við því­ hvað hún ætti að mala, þá hefði gleymst að taka það fram í­ spurningunni. Hinn kosturinn var að gefa rangt á sömu forsendu – að svarið væri ónákvæmt og að liðið hefði átt að taka fram atriði sem reyndar var ekki spurt um…

Hvor kosturinn sem yrði ofan á, myndi hitt liðið verða óánægt. Skiljanlega.

Fyrri kosturinn var þó klárlega sanngjarnari, enda völdum við hann. Stærstu mistökin voru lí­klega þau hversu mikið fát kom á okkur Loga. Ef við hefðum bara sagt skýrt og afdráttarlaust „rétt“ eða „rangt“ hefðu liðin ekki orðið svona tortryggin.

En klúðrið lá ekki í­ dómgæslunni heldur spurningunni sjálfri. Hún var ólán. Þessi tegund spurninga getur alltaf orðið það. – Þess vegna mæli ég ekki með því­ við nokkurn mann að semja GB-spurningar um notkun hluta, handbrögð og verklag. Þá eru nú helv. höfuðborgirnar og kónganöfnin auðveldari viðfangs…