Það er kunnara en frá þurfi að segja að Mogginn hefur á síðustu misserum glatað þeirri yfirburðastöðu sem hann hafði áður meðal íslenskra prentmiðla. Ég hafði þó ekki gert mér grein fyrir því hversu skuggalegt ástandið væri orðið.
Pistill Vef-Þjóðviljans í dag segir í raun alla söguna um hrun blaðsins.
Á stuttu máli er pistillinn á þá leið að teknir eru bútar úr þremur greinum sem birst hafa í Morgunblaðinu upp á síðkastið, þar sem fólk af vinstri væng stjórnmálanna fer fögrum orðum um þá Davíð Oddsson og Björn Bjarnason.
Um þetta segir Vef-Þjóðviljinn: „Þær munu hvergi annars staðar birtast og til þeirra verður ekki fremur vitnað en þær hefðu aldrei birst“
Þetta eru afar athyglisverð ummæli. Þau verða nefnilega ekki skilin á annan hátt en að það að viðra sjónarmið í Morgunblaðinu feli nánast í sér þöggun. Hversu djúpt sokkinn er Mogginn þegar pólitísk vefrit þurfa að halda til haga sjónarmiðum sem birtast í prentútgáfunni, í þeirri von að einhver veiti þeim athygli? Mikið kaldari gerast kveðjurnar nú varla…