Ólympíuleikarnir nálgast og í ár eru fjörutíu ár frá frægustu pólitísku aðgerð sem þeim tengist – verðlaunaafhendingunni eftir 200 metra hlaupið, þar sem tveir bandarískir keppendur steyttu hnefann til að mótmæla kynþáttakúgun gegn svörtum í Bandaríkjunum.
Ég fór að lesa mér til um þetta atvik og í ljós kom að margt af því sem ég taldi mig vita um það var ekki fyllilega nákvæmt.
Maður hafði einhvern veginn alltaf heyrt að hlaupararnir tveir hafi farið mjög illa út úr þessum aðgerðum – verið reknir úr Ólympíuliðinu af bandarísku ÓL-nefndinni og mátt sæta atvinnuofsóknum heima fyrir.
Reyndin var hins vegar sú að bandaríska ÓL-nefndin ætlaði að láta mótmælin óátalin, en það var alþjóða Ólympíunefndin sem þvingaði hana til að refsa félögunum. Eftir að heim var komið áttu báðir glæstan íþróttaferil, en máttu vissulega sæta hótunum frá reiðum einstaklingum.
Þriðji maðurinn – ástralski silfurverðlaunahafinn sem stóð með þeim á pallinum – fór að sumu leyti verst út úr málinu. Peter Norman studdi aðgerðir þeirra félaga og aðstoðaði þá raunar við verknaðinn. Hann ræddi um atvikið við fjölmiðla, sagðist hlynntur mótmælunum og sendi samlöndum sínum tóninn fyrir hvítan yfirgang.
Peter Norman var fyrir vikið meinað að keppa á ÓL 1972 og fékk aldrei að njóta sannmælis sem sá hlaupagarpur sem hann var. Og eftir að félagar hans tveir af pallinum í Mexíkóborg voru orðnir heimskunnir og dáðir fyrir framtakið, var Norman flestum gleymdur.
Illa farið með góðan dreng.