Anna Kristjánsdóttir, góð kunningjakona mín og vinnufélagi í Orkuveitunni, lætur vaðalinn um „19.aldar götumynd“ miðbæjarins fara í taugarnar á sér í nýjustu færslu.
Ég get verið sammála þessu.
Nú er ég almennt séð hlynntur verndun gamalla húsa. Það er þó ekki algilt, því gömul hús hafa ýmsa galla, t.d. eru þau illfær fötluðu fólki. Ég er ekki til í að útiloka fólk í hjólastólum frá þátttöku í samfélaginu þótt það sé krúttlegt að hafa gömul hús í miðbænum. Borgaryfirvöld sem vilja í raun viðhalda gömlum húsum þurfa því jafnframt að axla þá ábyrgð að gera eigendum gamalla húsa kleift að standast nútímakröfur, t.d. varðandi aðgengi.
Ég spyr: hvað getur t.d. eigandi 70 ára gamals húss á Laugavegi gert ef hann vill koma upp lyftum, skábrautum, fjarlægja þröskulda eða breikka hurðaop? Getur hann sótt í einhverja sameiginlega sjóði? Meðan slíkt kerfi er ekki fyrir hendi, þá er tómt mál að tala um húsaverndun.
En víkjum aftur að götumyndinni.
Af hverju að tala um „19. aldar götumynd“? Nú eru húsin sem um ræðir flest byggð á tímabilinu 1895-1920, eða þar um bil. Það er ekki 19. öld – það er í besta galli „aldamóta-götumynd“ en þó öllu heldur „snemm-20.aldar götumynd“.
Er ekki nógu töff að viðurkenna að hús sem byggt er 1910 og er í skralli sé frá sömu öld og Duran Duran? Þarf það helst að heyra til sömu aldar og Jón forseti og fyllibyttan frá Hrauni? Það er frekar kjánalegt.