Samkvæmt fréttum á að leggja frumvarp fyrir Alþingi um að forsvarsmönnum trúfélaga verði heimilað að staðfesta samvist fólks af sama kyni. Þetta er réttlætismál, enda hefur t.d. lengi verið bent á óréttlæti þess að við í ísatrúarfélaginu – sem viljum endilega fá að gifta samkynhneigða – fáum ekki að taka ákvörðun um slíkt, bara vegna þess að Karl Sigurbjörnsson og félagar hafa verið að draga lappirnar.
Það var því löngu tímabært að gefa söfnuðum þessa heimild – úr því að menn hafa ekki verið til í að fara alveg í hina áttina og láta sýslumenn eina um að gefa út hjónavígsluvottorð, sem auðvitað væri eðlilegast.
Á sama hátt er ekki óeðlilegt að sjálfstæðum söfnuðum sé þetta valkvætt. Kaþólski söfnuðurinn mun eflaust neita að viðurkenna hjúskap fólks af sama kyni og sama gildir um Krossinn og aðra sambærilega söfnuði. Það er svo sem enginn skikkaður til að vera í þessum trúfélögum (nema reyndar ósjálfráða börn sem fylgja móður – en það er önnur saga), svo þeir sem ekki kunna að meta þessa stefnu geta einfaldlega gengið í annan söfnuð eða stofnað sinn eigin.
EN – sérkennilegra þykir mér þó ef það er í raun og veru ætlunin að leyfa prestum þjóðkirkjunnar að taka einstaklingsbundnar ákvarðanir um hvort þeir vilji sinna þessu verki.
Þjóðkirkjuprestar eru ríkisstarfsmenn og sem slíkir hljóta þeir að vinna þau verkefni sem starfslýsingin hljóðar upp á. Framhaldsskólakennari getur ekki neitað að kenna tilteknum nemendum, fólkið í afgreiðslunni hjá skattinum getur ekki valið hvaða viðskiptavinum það kýs að sinna.
Það má tína til rök með því og á móti að Gunnar í Krossinum fái sjálfur að ráða því hvort hann gefur saman tvo karla eða tvær konur – en almennur prestur í Þjóðkirkjunni hlýtur að fara eftir þeim fyrirmælum sem honum eru sett af ráðherra. Flóknara er það nú ekki.