Var að horfa á gamlan skólabróður, Sigmund Gunnlaugsson, ræða um skipulagspólitík hjá Agli Helgasyni. Hann telur að lykillinn að betra mannlífi í Reykjavík sé sú að byggja fleiri hús eftir teikningum frá Guðjóni Samúelssyni. Það er góð og gild kenning.
Á dag fór famelían í bæinn. Fyrst á leiksýningu í Þjóðleikhúsinu (Skoppa og Skrítla) – því næst niður í bæ. Við settumst niður fyrir framan ljótasta hús Reykjavíkur, strætóstöðvarbastarðinn við Hafnarstræti/Lækjartorg. Húsbóndinn lapti bjór en mæðgurnar þömbuðu sódavatn og mauluðu vonda svampbotnsköku. Barnið skottaðist svo milli borðanna á stéttinni á Lækjartorgi og fylgdist svo með stórum krökkum hoppa í París.
Hvað ætli það séu margir dagar í árinu sem þetta er hægt á Lækjartorgi? Þrjátíu? Fjörutíu? Varla meira… Það er ekki vegna þess að Strætóstöðvarskrímslið sé ljótt eða fallegt – heldur vegna þess að alla hina daganna er rok. Og það er ekki hægt að sitja á Lækjartorgi nema í logni.
Jújú, ég get alveg verið sammála félaga Sigmundi að miðbærinn yrði snotrari með færri Moggahöllum og fleiri húsum frá fjórða áratugnum – en ætli það skipti ekki mestu máli að hafa þokkalegt logn? Að ná að skipuleggja miðborgina þannig að það finnist nokkrir túnbleðlar með sólarbirtu mestallann daginn og í logni…