Fótboltinn fer vel af stað hjá okkur Frömurum. Fjórir leikir búnir, veðrið búið að vera ákjósanlegt og þrír sigrar litið dagsins ljós. Leikurinn gegn Þrótti í gær var reyndar hroðalegur af okkar hálfu og raunar óskiljanlegt að okkur hafi tekist að vinna. Ég skil vel að Þróttarar séu sárir.
Guðjón Þórðarson gerir harða atlögu að fyrri metum sínum í vænisýki og samsæriskenningum. Stóri skandallinn að hans mati er rauða spjaldið sem Stefán Þórðarson fékk í gær.
Á síðustu umferð fóru Framarar á Skagann og þar var Stefán eins og naut í flagi. Við Framararnir vorum orðnir verulega hvekktir á því hversu mikið honum leyfðist og töldum að löngu hefði verið átt að reka hann útaf. Skagamennirnir í stúkunni sögðu okkur hins vegar að þetta væri nú ekki mikið, því Stefán hafi verið ljónheppinn að fá ekki rauða spjaldið gegn FH í næsta leik á undan.
Það er því greinilega eitthvað að fara í skapið á Stefáni Þórðarsyni um þessar mundir, sem allir virðast sjá nema þjálfarinn.