EM er handan við hornið. Stórmót í fótbolta eru alltaf skemmtileg, þótt eitthvað segi mér að ég eigi eftir að sjá minna af þessu móti en flestum öðrum. Á það minnsta hef ég einsett mér að láta leikjaplanið ekki ráða því hvernig ég hafa dögunum – þótt vitaskuld verði sjónvarpið alltaf í gangi ef ég verð heima á leiktíma.
Og svo má ég náttúrlega ekki missa af leik hjá Grikkjunum.
Þótt skömm sé frá að segja er ég ekki enn búinn að leggja riðlana almennilega á minnið og þurfti að slá því upp áðan hvaða lið spila í seinni leiknum á morgun.
Ég spái því að heimamenn muni byrja vel og leggja Tékka í opnunarleiknum. Tyrkir munu svo mæta sterkir til leiks gegn Portúgölum og ná í það minnsta jafntefli…
# # # # # # # # # # # # #
Steinunn er í hálfgerðu lamasessi eftir seinni helming endajaxlatöku (vinstri kjálkarnir að þessu sinni). Jaxlarnir hafa ekki verið rifnir úr mér, þótt einhverjir tannlæknar hafi nú fært það í tal. Gríðarlega margir sem ég þekki eru hins vegar endajöxlunum fátækari.
Mér er spurn – er þetta einhver hönnunargalli frá náttúrunnar hendi? Af hverju erum við með „of marga“ jaxla? Er þetta e.t.v. arfur frá þeim tímum þegar tennur fólks tættust hraðar upp og þá gott að hafa „varatennur“ á lager sem gátu ruðst framávið? Spyr sá sem ekki veit.
# # # # # # # # # # # # #
Ég lýsi því hér með yfir að ég er tilbúinn að veðja bjórkassa við hvern sem vill, um að boðaður Lýðræðisflokkur Sturlu Jónssonar mun EKKI verða í framboði í næstu þingkosningum. íhugasamir um slíkt veðmál gefi sig fram í athugasemdakerfinu.