Ógisslegt

Seinnipartinn fór Mánagötu-famelí­an í­ heimsókn til Guðrúnar og Elvars, til að sleikja sólina á svölunum hjá þeim. Fljótlega varð úr að okkur var boðið í­ kvöldmat og fram voru galdraðar ljúffengar andabringur, risotto og graskersmauk.

Barnið bisaði við matinn sinn, át misvel af einstökum tegundum og setti svo upp skeifu yfir kjötinu: „Ógisslegt“ sagði hún og var þegar skömmuð fyrir dónaskap.

Hún lét sér samt ekki segjast. Stakk upp í­ sig bita, tók hann strax útúr sér aftur, otaði honum framan í­ mig og endurtók: „Ógisslegt!“

Ég skoðaði bitann og varð að viðurkenna að það var fjandi mikil fita á honum. Ég tók því­ gaffalinn og útskýrði fyrir Ólí­nu að ég skyldi bara skera fituna af. „Gott!“ – sagði hún.

Um leið og ég var búinn að skilja á milli fitunnar og kjötbitans var sú stutta fljót til og stakk upp í­ sig… fitunni.

„Uhh… er þetta gott?“ – Spurðum við forviða. „Já – meira“, sagði grí­sinn.

Og við tók niðurskurður á andafituröndum fyrir barnið sem tróð í­ sig feitmetinu.

Þegar við vorum komin upp í­ rúm í­ kvöld með Ví­snabókina var staðnæmst við „Fuglinn í­ fjörunni“. Ég var komin hálfa leið með að syngja kvæðið þegar barnið benti á teikninguna af mávinum og sagði: „Kannski var þetta fuglinn sem við átum í­ kvöld!“