Því hefur verið haldið fram að KR-búningurinn svart- og hvítröndótti hafi orðið fyrir valinu vegna þess að Newcastle United hafi verið svo öflugt í byrjun aldarinnar. Þetta er þó væntanlega bara tilgáta.
Nú er miðað við að KR sé stofnað árið 1899 – þótt líklega megi þrefa um það ártal. Á ljósmynd sem tekin var í byrjun tuttugustu aldar og á að sýna KR-inga á æfingu sést að einn og einn maður er í röndóttri treyju. Það gæti bent til þess að félagsmenn hafi snemma litið svo á að æskilegt væri að eignast slíka flík.
Varla hafa menn þó haft sama skilning á hugtakinu félagsbúningur og síðar varð. KR var á þessum tíma fyrst og fremst vettvangur fyrir knattspyrnuæfingar en ekki keppni. Fótboltaleikir voru einkum milli félagsmanna á æfingum og þá var til lítils að allir væru í eins treyjum.
Ef hugmyndin um röndótta búninginn er komin fram rétt um 1900 er vandséð hvers vegna Newcastle hefði átt að vera fyrirmyndin. Liðið hafði lítil afrek unnið á knattspyrnuvellinum og Íslendingar virðast ekki hafa vitað neitt um ensku knattspyrnuna – hvað þá að þeir gætu skoðað ljósmyndir af enskum fótboltaliðum. Híns vegar gerðu þeir sér grein fyrir því að Bretar væru öðrum þjóðum fremri í fótbolta.
1912 verða KR-ingar Íslandsmeistarar í hvítum treyjum. Sigra Framara sem þá þegar eru komnir í bláa búninginn. Það er því ekki fyrr en eftir 1912 sem svarthvíti búningurinn verður óskoraður einkennisbúningur KR. – Gaman væri að vita hvenær það gerist nákvæmlega. Varla þó seinna en svona 1915-1917 giska ég á.
Hvenær fara Íslendingar hins vegar að fá dellu fyrir ensku knattspyrnunni? Mér sýnist það byrja strax uppúr fyrri heimsstyrjöldinni – eða fljótlega eftir 1920. Fyrstu erlendu knattspyrnufréttirnar sem eitthvað kveður að eru af landsleikjum, en mjög fljótlega er farið að segja úrslit í ensku knattspyrnunni. Þá fyrst gæti maður farið að trúa því að íslenskir fótboltamenn velji sér treyjur að fyrirmynd Englendinga.