Það er ónotalegt að fylgjast með fréttunum af brottvísun fjölskyldunnar frá Kenýa. Eiginlega vonar maður að málið sé flóknara en ætla mætti af fjölmiðlum og að embættismennirnir íslensku hafi haft einhver skynsamleg rök fyrir sér, sem enn hafi ekki fengið að koma fram. Einhvern veginn finnst mér það samt ekkert sérstaklega líklegt.
Það sem einkennir flóttamannapólitíkina íslensku er að hér fær nánast enginn hæli sem flóttamaður (hvað þá pólitískur flóttamaður) sem kemur „inn af götunni“. Stjórnvöld geta fellt sig við að taka á móti hópum einkum ef frumkvæðið er héðan, en einstaklingar eða fjölskyldur sem hingað álpast eiga engan séns.
Þetta er meðvituð stefna – eins og öllum mætti vera ljóst. Engu að síður hefur hið opinbera aldrei gengist við því að þetta sé stefnan. Þvert á móti er alltaf látið eins og allir eigi möguleika á að verða hér pólitískir flóttamenn ef málefnaleg sjónarmið séu fyrir hendi. Þess vegna er engum flóttamanni vísað brott á þeim forsendum að við viljum ekki fá neina slíka, heldur er sagt að þeir séu einfaldlega ekki nógu góðir umsækjendur.
Ég hef oftar en einu sinni stungið upp á lagabreytingu sem ég held að gæti haft veruleg áhrif á hvernig unnið er úr þessum málum. – Það er að setja kvóta á pólitíska flótamenn.
Hér á ég ekki við hámarkskvóta, heldur lágmarkskvóta.
Auðveldlega má hugsa sér að sett verði í reglur að ekki skuli veita færri en t.d. fimmtán einstaklingum og/eða fjölskyldum þeirra (bara til að nefna einhverja tölu) hæli sem pólitískir flóttamenn á ári hverju. Það væri svo eitt af skilgreindum verkefnum Útlendingastofnunnar að tryggja að þessari tölu væri náð. Ef Útlendingastofnun mæti það sem svo að góðar og gildar umsóknir um pólitískt hæli næðu ekki þessari tölu, þá þyrfti hún einfaldlega að hafa samband við kollega sína úti í löndum og finna þar „nógu góða“ pólitíska flóttamenn. (Auðvitað mætti hugsa sér að hægt væri að flytja kvótann að einhverju leyti milli ára til að auðvelda embættismönnunum störfin.)
Og hvað væri unnið með þessu?
Jú, eitthvað segir mér að ef kerfið væri skyldugt til að „tryggja“ vissan fjölda pólitískra flóttamanna – þá muni umsóknir ansi margra þeirra sem nú fá synjun verða litnar talsvert öðrum augum en nú er. Ætli margir þeirra sem núna fá synjun þættu ekki harlagóðir í huga embættismanna sem vissu að þeir þyrftu að fylla upp í kvóta?