Útlendingastofnun stendur í ströngu. Kollegarnir í Bandaríkjunum munu væntanlega hafa í nógu að snúast innan tíðar. Bandaríkin og Kúba drógust saman í riðil í forkeppni HM. Þegar kúbanska u-23 ára liðið lék í BNA fyrr á þessu ári sneri hálft liðið ekki aftur.
Norður- & Miðameríkukeppnin fyrir HM 2010 er í fullum gangi. Tólf lið eru eftir – þar af bara tvö sem aldrei hafa keppt í úrslitum HM. Þau hafa nú verið dregin í þrjá fjóra liða riðla. Tvö efstu liðin í hverjum þeirra fara svo í sex liða úrslitariðil. Þaðan komast þrjú lið beint til Suður-Afríku, en fjórða liðið etur kappi við fimmta liðið frá Suður-Ameríku um lokasætið. Þetta mun í praxís þýða að Bandaríkin og Mexíkó komast áfram ásamt þriðja liði. Fimmta Suður-Ameríkuliðið mun alltaf hirða síðasta sætið.
Bandaríkin og Kúba leika í A-riðlinum ásamt Guatemala og Trinidad & Tobago. Þar má reikna með auðveldum bandarískum sigri – þótt raunar hafi lið BNA oft farið flatt á að vanmeta nágranna sína. Hin liðin eru meira spurningamerki. T&T komst öllum að óvörum í úrslitakeppnina í Japan og Suður-Kóreu fyrir fjórum árum, síðan hefur leiðin hins vegar legið beint niður á við. Guatemala og Kúba eru fremur á uppleið, einkum síðarnefnda liðið.
Spádómur: Bandaríkin og Kúba áfram (nema hálft liðið stingi af í útileiknum gegn BNA, þá Guatemala.)
Á B-riðli eru: Mexíkó, Kanada, Jamaíka og Hondúras – en öll fjögur hafa komist í úrslitakeppni HM. Mexíkó verður ekki í minnstu vandræðum með að vinna riðilinn. Jamaíka komast á HM í Frakklandi 1998, en liðið er í mikill lægð ef tekið er mið af úrslitum síðustu missera. Verða varla til stórræðanna. Fótbolti er öríþrótt í Kanada og það er raunar með ólíkindum hversu metnaðarlaust knattspyrnusambandið þar er ef tekið er mið af landsleikjaskránni. Hondúras er hins vegar á uppleið um þessar mundir.
Spádómur: Mexíkó og Hondúras áfram.
C-riðillinn er skemmtilegastur: Kosta Ríka, El Salvador, Súrínam og Haíti. Kosta Ríka-menn hafa vitaskuld mestu hefðina og þótt liðið sé engan veginn eins sterkt og 1990 eða 2002 verður það að teljast sigurstranglegast í riðlinum. Haití-menn eru handhafar Karabíska-bikarsins frá því í fyrra, en máttu hafa sig alla við að vinna Hollensku-Antilleseyjar í forkeppninni. Yrði frekar undrandi ef þeir skriðu áfram.
El Salvador hefur haft tuttugu landsliðsþjálfara á tuttugu árum. Það hlýtur að vera einhvers konar met! Liðið er nær einvörðungu skipað leikmönnum sem spila í heimalandinu. Með öðrum orðum: þeir eiga ekki séns.
Þá er aðeins eftir eina Suður-Ameríkuliðið sem eftir er í keppninni, Súrínam. Eins og flestir vita, eru margir af helstu knattspyrnumönnum Hollands ættaðir frá Súrínam og það liggur beint við að ætla að Súrínam gæti teflt fram 3-4 landsliðum, skipuðum leikmönnum sem spila í Hollandi sem hvert um sig ætti að geta gert góða hluti í forkeppni HM… EN… Súrinamar eru stoltir og hafa því sett þá reglu að einungis leikmenn sem spila í heimalandinu komi til greina í landsliðið.
Spádómur: Kosta Ríka og Súrínam áfram, þrátt fyrir hina heimatilbúnu fötlun þeirra síðarnefndu. Ég ætla að halda með Súrínam í þessari keppni…