Á kvöld verður söguganga í Elliðaárdalnum í boði Orkuveitunnar undir stjórn þess er þetta ritar.
Lagt af stað kl. 19:30 frá Minjasafninu. Allir velkomnir. Rúsína í pulsuenda.
# # # # # # # # # # # #
Sjálfseyðingahvöt Brown-stjórnarinnar í Bretlandi er sjálfstætt rannsóknarefni. Nýjasta útspil hennar er lagafrumvarp sem gerir ráð fyrir að hægt verði að sakfella menn á grundvelli nafnlauss vitnisburðar – það er, að sakborningur og lögmaður hans fái ekki að vita deili á þeim sem vitna gegn þeim né eigi færi á að gagnspyrja viðkomandi. Það getur ekki gengið upp í réttarríki.
Vegna þessa og fleiri verka bresku stjórnarinnar held ég að fáir sýti þá kreppu sem Verkamannaflokkurinn er kominn í. Bloggarinn Baldur McQueen (sem ég virðist ekki mega kommenta hjá vegna einhverrar spam-síu) skrifar um lífróður Gordons Brown.
Á stuttu máli sagt eru bresku blöðin nú að ræða á þeim nótum að Brown verði að víkja ef flokkurinn vinnur ekki aukakosningar í Austur-Glasgow á næstunni. Raunar eru líkurnar á að SNP takist að vinna þar sigur hverfandi – tap þarna væri á pari við það ef íhaldið missti Seltjarnarnes eða Garðabæ. En allt getur svo sem gerst…
Illu heilli fyrir Gordon Brown munu kosningarnar þarna ekki bara snúast um snautlegan feril stjórnar hans – heldur spilar skosk lókalpólitík líka mikið inní.
Minnihlutastjórn SNP og Græningja (sem LibDem neituðu að styðja í óskiljanlegasta pólitísku sjálfsmarki síðustu ára) er furðuvinsæl. Verkamannaflokkurinn í Skotlandi er á sama tíma hálfgert drasl. Það skýrist að talsverðu leyti af því að bestu stjórnmálamenn Verkamannaflokksins vilja allir komast á breska þingið, en sterkustu fulltrúar SNP vilja vera á skoska þinginu. Verkamannaflokkurinn ætti ekki að vera í stórvandræðum með að vera stærsti flokkur Skotlands – en það er ansi erfitt að tefla alltaf fram b-liðinu gegn a-liði andstæðingsins.
Wendy Alexander hrökklaðist nýverið á braut sem flokksformaður eftir ár í embætti. Meðal þeirra sem komið hefðu til greina í djobbið var Margaret Curran skuggaráðherra heilbrigðismála. Núna neyðist Verkamannaflokkurinn hins vegar til að tefla henni fram í slagnum í Austur-Glasgow.
Líklega mun Curran verða nógu sterk til að landa sigri í aukakosningum, en það gæti þó reynst viss Pyrrhosarsigur. Verkamannaflokknum í Skotlandi veitir nefnilega ekkert af öllum sínum leiðtogum í baráttunni við Salmond – og það sem meira er, eitt helsta áróðurstrixið sem notað hefur verið gegn honum er sú staðreynd að SNP-foringinn hefur setið samtímis á skoska og breska þinginu. Á ljósi framboðs Currans neyddist Verkamannaflokkurinn til að fjarlægja þegjandi og hljóðalaust af heimasíðu sinni allar vammir og skammir í garð Salmonds vegna þessa – enda ljóst að flokkurinn mun ekki taka sénsinn á að láta Curran segja af sér á þinginu í Edinborg með tilheyrandi aukakosningum.
Skoskir kratar eru í vondum málum.
# # # # # # # # # # # # #
Davíð Þór verður dómari í GB. Mætti ég stinga upp á Evu Maríu í spyrilinn?