Egill Helgason hrósaði í gær sigri Evrópu á Ólympíuleikunum, þar sem lönd Evrópusambandsins hefðu tekið fleiri verðlaun en stóru löndin þrjú hvert um sig: Kína, Bandaríkin og Rússland. Á kjölfarið spruttust umræður á síðunni hans um hvað gerast myndi ef Bandaríkin sendu keppendur frá hverju ríki en ekki í gegnum alríkið.
Egill spyr: „Þú heldur að leynist margir gullverðlaunahafar í Nebraska?“
Tja – þá stórt er spurt… Hvernig ætli Ísland færi út úr samanburði við Nebraska? Reynum að svara þeirri spurningu.
íbúar í Nebraska eru sex sinnum fleiri en Íslendingar. Ekki er reyndar víst að hlutfallið hafi verið það sama frá því að keppni í ÓL-nútímans hófst, en við skulum samt nota þá tölu til viðmiðunar.Einföld leit á netinu gefur til kynna að Nebraska gjörsigri Ísland, þótt tekið sé tillit til höfðatölureglunnar. En ekki er allt sem sýnist.
Listar yfir „íþróttafólk frá Nebraska“ sem unnið hefur til gullverðlauna á Ólympíuleikum innihalda oft fólk sem stundað hefur nám við háskóla í ríkinu og unnið íþróttaafrek á ÓL á sama tíma eða skömmu síðar. Þetta á sérstaklega við fimleika- og fjölbragðaglímumenn, en mikil hefð virðist vera í Nebraska fyrir hvoru tveggja.Á öðru lagi er ekki sanngjarnt að telja með alla íþróttamennina frá Nebraska sem unnið hafa til verðlauna í hópíþróttum. Við skulum draga þá alla frá. (Og miðað við þá skilgreiningu er stór spurning hvort rétt sé að telja handboltasilfrið okkar með.)
Ef aðeins er miðað við einstaklingsíþróttir og fólk sem sagt er fætt í Nebraska – sýnist mér að um sé að ræða að lágmarki tólf gullverðlaun. – Miðað við höfðatöluregluna og hlutfallið einn á móti sex, er ljóst að tólf gullverðlaun trompa verðlaunaskápinn okkar og þá erum við ekki einu sinni farin að líta á öll silfur- og bronsverðlaunin sem synir og dætur Nebraska hafa unnið til.
Og í þessum verðlaunahafahópi eru líka frægir einstaklingar, s.s. Marjorie Gestring sem vann gullið í dýfingum á leikunum 1936. Hún var þá 13 ára og 9 mánaða – og er því yngsti gullverðlaunahafi í einstaklingsíþrótt í sögu leikanna.
íþróttalífið í Nebraska lumar svo sem á fleiri görpum en kempum af Ólympíuleikum: Ætli Andy Roddick sé ekki frægasti núlifandi íþróttamaður Nebraska. Hann var í 1.sæti á heimslistanum í tennis fyrir nokkrum árum.
Ef farið er aftar í tímann er Max Baer líklega stærsta nafnið. Hann var heimsmeistari í þungavigt hnefaleika, en tapaði í einhverjum sögufrægasta bardaga allra tíma gegn James Braddock (Cinderella Man) – sem er hið klassíska Hollywood-íþróttadrama.
Ég reikna með að flestir íþróttaáhugamenn telji þá Roddick og Baer trompa Vilhjálm Einarsson og Völu Flosa.Niðurstaðan er skýr. Við Íslendingar (og Evrópubúar) ættum að fara okkur hægt í mannjöfnuði við Nebraska.Â