Hér er pólitískur spádómur:
Næstu vopnuðu átök í Evrópu verða ekki á Balkanskaga og þau verða ekki í Georgíu (þótt líklega megi búast við einhverjum smáskærum í Abkasíu þar sem hópar Abkasa eða Georgíumanna munu reyna að rugga bátnum í von um að stríð brjótist út.)
Þess í stað er ég smeykur um að næsta stríð verði í Nagorno-Karabakh.
Héraðið er í svipaðri stöðu og Abkasía og Suður-Ossetía. Það er innan viðurkenndra landamæra Azerbaijan, en hefur í raun verið sjálfstætt frá því að stríði Armena og Azera um yfirráð þess lauk árið 1994.
Stríðið um Nagorno-Karabakh var blóðugt og kostaði mörgþúsund mannslíf. Friðurinn sem samið var um í kjölfarið hefur aldrei verið sérstaklega tryggur.
Fréttir síðustu daga af átökunum í Georgíu hafa flestar snúist um það hvort nýtt kalt stríð sé í uppsiglingu. Það eru óþarfa áhyggjur. Hins vegar er miklu meiri ástæða til að hafa áhyggjur af því að atburðirnir í Georgíu geti leitt til nýs stríðs vegna Nagorno-Karabakh.
Iiham Aliyev, forseti Azerbaijan, hlýtur að fylgjast af athygli með framvindu mála. Öll rök Georgíumanna fyrir því að halda með her sinn inn í Suður-Ossetíu eiga við varðandi Nagorno-Karabakh.
Aliyev á það sameiginlegt með Georgíuforseta að vera skilgreindur sem „okkar maður“ – lýðræðissinni, umbótasinni og hvaðeina… Sú staðreynd að hann tók við völdum af pabba sínum, gamla KGB-foringjanum, komst til valda í kosningum sem alþjóðleg mannréttindasamtök gagnrýndu og að mótmæli stjórnarandstöðunnar hafa verið barin niður – hafa auðvitað engu breytt um stuðning Vesturlanda. Aliyev og Azerbaijan eru í „okkar liði“ í stríðinu gegn hryðjuverkum.
Þeir evrópsku ráðamenn sem nú klappa Georgíuforseta á bakið ættu að staldra við og leiða hugann að því í eitt augnablik hvernig í ósköpunum þeir hafa hugsað sér að bregðast við ef herinn í Azerbaijan ræðst inn í Nagorno-Karabakh á næstu mánuðum. ítökin í Georgíu væru hreinn barnaleikur miðað við afleiðingar slíkrar innrásar.