Össur Skarphéðinsson er skrítin skrúfa. Bloggsíðan hans hefur alloft komist í fréttirnar – einkum í tengslum við einhverjar blammeringar og sleggjudóma. Þetta töldu einhverjir merki um að ráðherrann væri stílsnillingur. Sjálfur sá ég aldrei stílsnilldina í frekar tilgerðalegri notkun á orðatiltækjum og frösum. En gott og vel, það má ekki taka það af Össuri að bloggið hans hefur meira aðdráttarafl en gerist og gengur með síður íslenskra stjórnmálamanna – sem sumar hverjar virðast ennþá vera búnar til árið 1997 og byrja á forsíðuávarpi sem hefst á: „Alnetið er miðill framtíðarinnar… blabla…“ Þess vegna les ég blogg Össurar Skarphéðinssonar og mun halda því áfram. Mikið óskaplega vildi ég samt að iðnaðarráðherra vendi sig af einum ljótum ósið – sjálfshólinu. Tökum pistil kvöldsins sem dæmi.  Á honum skammast Össur út í Steingrím Joð, sem hann telur hafa farið illa út úr umræðum dagsins á þinginu. Gott og vel – það kann vel að vera að SJS hafi verið slappur og lent í vandræðum (ekki horfði ég á þetta). Það getur líka vel verið að Össur hafi verið í banastuði og pundað út djókunum á kostnað stjórnarandstöðunnar. En mikið finnst mér það óþægilegt að lesa pistla þar sem menn hrósa sjálfum sér með þeim hætti sem þarna er gert. „Djöfull tók ég´ann…“ gæti pistill ráðherra eins hafa heitið – því það er augljóst að Össuri finnst hann hafa farið á kostum.Á fljótu bragði man ég ekki eftir öðrum íslenskum stjórnmálamönnum sem tileinkað hafa sér þennan stíl. Og þó – í sjálfsævisögu Steingríms Steinþórssonar  má finna allmarga kafla sem eru í þessum dúr. Þar sem andstæðingunum er lýst sem viðskotaillum og hlægilegum, en frægum sigrum Steingríms í kappræðunum lýst nákvæmlega og oftar en ekki klykkt út með klausum eitthvað á þessa leið: …og þótti Húnvetningum almennt að ég hafi farið með sigur af hólmi og (nafn á pólitískum andstæðingi) hefði minnkað að áliti. Er Össur kannski Steingrímur Steinþórsson sinnar kynslóðar? Þar væri ekki leiðum að líkjast.Â