Ég er stoltur sonur. Á dag varði mamma mastersritgerðina sína við Háskólann. Um er að ræða viðamikla rannsókn hennar á Ólympíuleikunum í eðlisfræði og landskeppninni í eðlisfræði, meðal annars út frá upplifun þátttakenda. Það var margt sláandi í niðurstöðunum, t.d. sú þróun í skólakerfinu að sífellt færri nemendur læra neina eðlisfræði að marki í framhaldsskóla – meira að segja nemendur sem síðar rata í verkfræði og raungreinar.
Þar með er öll kjarnafjölskyldan komin með meistaragráðu – mamma, pabbi, ég og Þóra systir. Tengdamamma kláraði sitt meistarapróf í vor og þá er bara komið að Steinunni að rumpa af ritgerðinni sinni… Þetta er sprenglært lið!
# # # # # # # # # # # # #
Ég er líka stoltur formaður. Á dag greiddum við upp bankalánið sem tekið var til að kaupa Friðarhúsið fyrir rétt rúmum þremur árum. Friðarhús SHA ehf. á því Friðarhúsið skuldlaust – ef frá er talin milljón krónu skuld við SHA, sem væntanlega verður skuldajöfnuð á móti leigu á næstu misserum.
Þetta er frábær árangur á ekki lengri tíma. Það er því líka kómískt að rifja það upp núna hversu dræmt bankarnir tóku okkur á sínum tíma. Lánakjörin sem félaginu buðust með traustum fyrsta veðrétti (og fyrir rétt um helmingi af kaupverði) voru lakari en bankarnir kepptust á þessum tíma við að bjóða einstaklingum á 90% lánum.
En núna er Glitnir búinn að fá peninga í kassann. Segið svo að SHA leggi ekki sitt að mörkum í baráttunni við kreppuna!
# # # # # # # # # # # # #
Á morgun (fimmtudag) verður opnun í höfuðstöðvum Orkuveitunnar á sýningu á tækjum sem gerð eru eftir teikningum Leonardos da Vinci. Almennar sýningar verða svo frá og með föstudeginum
Sýningin er samstarfsverkefni OR, borgarinnar og Hagkaupa. Hún er frábærlega skemmtileg og mun slá í gegn. Ekki missa af þessu!