Íslendingar eru sárir. Bresk stjórnvöld telja að fáeinir Íslendingar hafi haft mörghundruð milljarða króna af almenningi í Bretlandi og meðhöndla Íslendinga alla sem hryðjuverkamenn.
Þetta þykir okkur skiljanlega helvíti hart. Tuttugu þúsund manns taka þátt í einhverri netundirskriftarsöfnun á fáeinum klukkustundum. Fjöldi fólks hópast í myndatöku í Borgartúninu til að sýna fram á ósanngirnina. Og símatímar í útvarpinu og bloggþræðir loga.
Auðvitað er þetta frústrerandi.
Á öllu þessu svekkelsi hefðum við gott af því að rifja upp að fyrir fáeinum vikum réðust íslensk stjórnvöld eldsnemma að morgni inn á heimili fólks sem hér hefur sótt um pólitískt hæli. Rótað var í persónulegum eigum þess og fólkið meðhöndlað eins og glæpamenn, þar sem talið var að einhverjir í hópnum sigldu undir fölsku flaggi – og svo voru líka peningar sem ekki tókst að gera grein fyrir. Reyndar ekki mörghundruð milljarðar, en samt einhver 800 þúsund kall…
Nógu helvíti margir urðu til að fagna þessari aðgerð lögreglunnar og verja það að niðurlægja stóran hóp fólks vegna gruns um að einhverjir í hópnum hefðu ekki farið að reglum. Það skyldi þó ekki vera að einhverjir úr klappliði lögreglustjórans suður með sjó séu núna sárir yfir hryðjuverkastimplinum breska?
# # # # # # # # # # # # #