Af öllu ruglinu og vitleysisgangnum í tengslum við bankahrunið, þá er mesta heimskan fólgin í öllum undirskriftarlistunum og myndasýningunum sem ætlað er að sannfæra umheiminn um að Íslendingar séu ekki hryðjuverkamenn.
Hvaða apaketti datt þetta í hug?
Hverju á það að breyta að birta ljósmyndir af börnum, konum, gamalmennum og friðsamlegum bændum eða sjómönnum? Bíddu, eru rökin þau að börn geti ekki verið hryðjuverkamenn? Að gamalmenni séu ekki terroristar og að það sé eitthvað rangt við að refsa fólki fyrir hryðjuverk sem aldrei hefur tekið sér byssu í hönd?
Kunniði annan?
Á tæpan áratug erum við og bandalagsríki okkar í Nató búin að standa í því að drepa börn, konur og gamalmenni í stríðinu gegn hryðjuverkum.
Síðast í gær drápu Bandaríkjamenn fjögur hryðjuverkabörn í Sýrlandi í loftárás.
Auðvitað eru börn og gamlingjar hryðjuverkamenn! Uppá það höfum við skrifað á hverjum einasta degi frá því að stríðið í Afganistan hófst 1999. Þess vegna er myndbirtingar af ljóshærðum og bláeygum íslenskum börnum sem hafna því að vera hryðjuverkamenn hreinn fíflagangur.