Alltaf finnst mér jafnskrítið þegar sama fólk og talar fyrir auknum persónukosningum og hversu slæmt sé að binda sig á klafa stjórnmálaflokka – hneykslast síðan á Kristni H. Gunnarssyni og hristir hausinn yfir því hvað hann rekist illa í flokki.
Kristinn H. Gunnarsson er ekki við allra skap, en þó óumdeilanlega einn af aðsópsmestu stjórnmálamönnum þjóðarinnar. Hann er sá Alþingismaður sem er næst því að vera „persónukjörinn“. Það er helst að Ólafur F. Magnússon komist næst honum í að sækja stuðning sinn milliliðalaust til kjósenda. Ætli það megi ekki segja að þeir félagar hafi báðir verið kjörnir út á eigin vinsældir ÞRíTT FYRIR flokkstengslin en ekki vegna þeirra.
Það er því líklega óhætt að ganga út frá því sem vísu að með kosningareglum sem gæfu kost á auknu persónukjöri myndi fjölga verulega pólitíkusum á borð við Kristinn H. Gunnarsson og Ólaf F. Magnússon á þingi og í sveitarstjórnum.
Sem er líklega bara hið besta mál?
Ekki spurning, ég myndi setja Kristinn á blað þótt ekki væri nema fyrir skemmtanagildið.
Alveg er ég viss um að það er ekki sama fólkið sem talar fyrir persónukosningum og talar niðrandi um KHG. Þetta eru tveir ólíkir en álíka skemmtilegir hópar.
Jú veistu – þetta er furðu oft sami hópurinn.
Nákvæmlega eins og það er oft sama fólkið sem skammast yfir þingmönnum sem tali í fleiri klukkustundir á hverju þingi og séu endalaust blaðrandi – en tuðar jafnframt yfir að þingmenn séu aldrei í vinnunni, þingið alltaf í fríi og þingsalurinn mannlaus.
…og furðu oft sama fólkið sem andskotast af prinsippástæðum út í tilvist Ríkisútvarpsins, en mærir í næstu setningu Planet Earth, Top Gear, BBC World Service, etc.
Fyrir góð refhvörf á við þessi, þá mæli ég með að menn fylgist með skrifum og lífi Hannesar Hólmsteins. Hann er enn á því að markaðurinn geti rekið fyrirtæki betur en ríkið, og að ríkið sé slæmt í flesta staði.
Samt hefur maðurinn aldrei starfað utan hins opinbera að neinu marki.
Þið munið að beygja Kristin, strákar.
Magnús: Fallbeygingar eiga kannski við nafna Kristins, en ekki Kristinn H. Hann verður ei beygður.
Er sammála upprunalegu hneykslan Stefáns um Kristinn og co. en að skammast út í fólk sem vill að allir þingmenn séu mættir við umræður en vilja líka minna blaður um ekkert get ég ekki alveg skilið. Algjörlega óskyldir hlutir.
Ég vil að allir mæti og taki þátt, en ekki að 10% tali fyrir tómum sal 90% af tímanum.
Það sama á við um að vera á móti ríkisreknu sjónvarpi en vera hinsvegar hrifnir af þáttum eins og Top Gear – hefði slíkur þáttur s.s aldrei getað orðið til hjá einkasjónvarpi?
Kristinn er greindur og með góðar skoðanir á mörgum málum. Það er hins vegar ekki viðlit að starfa með honum í liði. En er ekki dálítið bratt að fullyrða að hann hafi komist inn á þing á eigin persónufylgi og „þrátt fyrir“ stimpil Frjálslynda flokksins.
Ég ætla ekki að fullyrða neitt, en mín tilfinning var sú að hann hefði fremur látið flokksformanninn draga sig inn og á endanum þurfti að auki töluverða heppni með niðurröðun jöfnunarþingmanna.