Spegilskrift

Á dögunum var ég með námskeið á vegum Endurmenntunarstofnunar HÁ um Leonardó frá Vinci. Eftir tí­mann spunnust nokkrar umræður um eitt og annað varðandi lí­f og störf listamannsins – þar á meðal þá sérkennilegu staðreynd að Leonardó kaus að skrifa minnisblöð sí­n með spegilskrift frá hægri til vinstri.

Ég var spurður hverju þetta sætti og átti ekki aðvelt með að svara. Helst datt mér í­ hug tvær skýringar: annars vegar er vitað að Leonardó kærði sig ekki um að óviðkomandi væru að snuðra í­ pappí­runum hans og óneitanlega hefur spegilskriftin gert forvitnum erfiðara fyrir – hins vegar liggur fyrir að listamaðurinn var -örvhentur og gæti því­ hafa talið sig geta skrifað hraðar með þessari aðferð.

Einn þátttakendanna í­ námskeiðinu kom með frumlegri skýringu. „Hvað er þetta var afritunaraðferð?“ – spurði hann og staðhæfði að hægt væri að skrifa sama texta með sitthvorri höndinni furðuhratt, að því­ tilskildu að vinstri höndin skrifaði spegilskrift en sú hægri á hefðbundinn hátt. Viðkomandi sagðist hafa prófað þetta sjálfur og það væri með ólí­kindum hversu fljótt þessi aðferð vendist.

Þessi tilgáta er í­ senn galin og stórsnjöll. Um leið og maðurinn varpaði henni fram, kviknaði viðskiptahugmynd í­ kollinum á mér. Hér er augljóslega komið plott í­ nýjan Da Vinci-lykil eða viðlí­ka reyfara. Því­ ef Leonardó beitti spegilskriftinni sem afritunartækni – þá er ljóst að handritin sem við höfum í­ höndunum eru bara afritin og að einhvers staðar hlýtur þá að leynast heilsteypt minnisblaðasafn meistarans.

Safn þetta er augljóslega geymt í­ rangölum Páfagarðs, grafið í­ jörðu á Þingvöllum eða – sem yrði frekar óvænt tvist, í­ inkahofi í­ Suður-Amerí­ku og þar með óvænt sönnun þess að Leonardó hafi sviðsett eigin dauða en flúið til Vesturheims þar sem hann náði hundrað ára aldri og uppgötvaði bæði viskusteininn og eilí­fðarvélina.

Ég hvatti viðkomandi til að segja ekki nokkrum manni frá þessu í­ Óðins bænum, þar til hann væri búinn að fá patent fyrir plottinu og selja kvikmyndaréttinn. Vona að hann sé búinn að ganga frá þessu, úr því­ að ég er hérna að blaðra frá.

En gæti þetta gengið upp – spegilskrift sem afritunartækni? Og hvar er þá hitt handritið?