Act of Settlement

Þetta skúbb The Herald hlýtur að teljast frétt dagsins fyrir okkur sagnfræðinga.

Samkvæmt heimildum blaðsins eru uppi áform um að nema úr gildi Act of Settlement frá 1701. Markmið laganna var að tryggja að Soffí­a frá Hanover myndi taka við krúnunni af Önnu drottningu. Raunar dó Soffí­a áður en til þess kom, en sonur hennar varð í­ staðinn konungur – Georg I.

Kjarni laganna er sá að konungur eða drottning Englands (sí­ðar Bretlands) verður að koma úr röðum prótestanta. (Þannig var komið í­ veg fyrir að kaþólsk skyldmenni Önnu drottningar gætu gert tilkall til valda.) Þessi tilhögun hefur haldist til þessa dags og verið réttlætt með því­ að þjóðhöfðinginn sé jafnframt höfuð ensku biskupakirkjunnar.

Á lögunum er að finna önnur og (í­ dag) veigaminni ákvæði, svo sem þau að ef kóngafólk af erlendum uppruna kæmist til valda í­ Englandi, mætti rí­kið ekki leggjast í­ hernað vegna deilna þess um rí­kiserfðir í­ öðrum löndum. Sem var mjög skynsamlegt í­ ljósi þess að Hanover-ættin var þýsk smákóngaætt og hefði getað staðið í­ endalausum strí­ðum á meginlandinu.

Með því­ að fella Act of Settlement úr gildi, væri breska þingið fyrst og fremst að senda táknræn skilaboð um að mismunun á grundvelli trúarbragða sé óþolandi. Ekkert bendir til þess að háttsettir meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar séu að fara að taka kaþólska trú (eða í­slam og heiðindóm ef því­ er að skipta). Hins vegar verður sá möguleiki nú fyrir hendi.

Með breytingunni er verið að koma til móts við gagnrýnisraddir, meðal annars frá Skotum – sem voru alltaf ósáttir við ákvæðið, enda kaþólikkar hlutfallslega sterkari þar en sunnan landamæranna. Að sögn The Herald vonast verkamannaflokkurinn að með þessu verði aðeins hægt að slá á uppgang SNP í­ Skotlandi. Nokkur samveldisrí­ki hafa sömuleiðis verið með múður vegna ákvæðisins – þar sem lýðveldissinnar benda á fáránleika þess að vera í­ konungssambandi sem krefst þess að þjóðhöfðinginn sé í­ söfnuði sem hefur takmarkaða útbreiðslu í­ hjálendunum. Þetta á t.d. við í­ Kanada og ístralí­u.

Lí­klega munu einhverjir súrir Englendingar tuða yfir þessu – tala um „umburðarlyndisfasisma“ og kvarta yfir því­ að hróflað sé við gömlum og grónum stofnunum. Aðrir hljóta að fagna.

Spurning hvort þessi breyting Bretanna – ef af verður – ætti ekki að verða Íslendingum hvatning til að endurskoða klausur í­ lögum og stjórnarskrá um sérstaka stöðu þjóðkirkjunnar. Ef Tjallarnir þola tilhugsunina um að Karl Bretaprins geti gerst baháí­i, þá hljótum við að geta rifið Karl Sigurbjörnsson niður af stallinum…