Aðalauglýsingatrixið í flugeldasölubransanum í ár er víst sprengiterta með skopmyndum af útrásarvíkingum. Fólk er þannig hvatt til að tjá andúð sína (reikna ég með) á þessum kónum með því að puðra þeim upp.
Þetta er kúnstugt ef haft er í huga upphaf þess að byrjað var að setja skopmyndir af stjórnmálamönnum á rakettur. Þá voru myndir eftir Sigmund af ráðherrum ríkisstjórnarinnar settar á flugelda. Síðar urðu þetta forystumenn stjórnmálaflokkanna – jafnt stjórnarliða sem stjórnarandstæðinga.
Sá var þó munurinn að á þeim árum voru menn hvattir til að skjóta upp „sínum manni“. Framsóknarmenn áttu að kaupa Steingrím Hermannsson, Sjálfstæðismenn Albert.
Núna virðast tívolíbombur hins vegar hafa öðlast fjölþættara menningarlegt hlutverk. Þær má nota mönnum bæði til lofs og lasts. Skrítið.
# # # # # # # # # # # # #
Rétt í þessu var ég að klára að lesa skáldsögu í striklotu. Og það helv.flotta bók.
Meira um það á nýju ári.