Fyrir jól litum við í heimsókn til tengdó sem var að pakka jólagjöfum. Á bunkanum var bók sem hún hafði gripið á einhverjum bókamarkaðnum löngu fyrr og var að velta fyrir sér að gefa einhverju skyldmenninu. Þetta var bók um sögu íslenskra fegurðarsamkeppna eftir Sæunni Ólafsdóttur.
Ég fór að blaða í bókinni og sýndi henni það mikinn áhuga að á aðfangadag fékk ég hana í aukajólagjöf.
Þetta er svo sannarlega bók sem kemur á óvart. Höfundurinn hefur viðað að sér gríðarlega miklu og skemmtilegu myndefni, s.s. hvers kyns auglýsingum. Á sama hátt er dreginn saman mikill fróðleikur um þetta afmarkaða efni. Það er augljóst af lestrinum að höfundurinn hefur brennandi áhuga á efninu, en hefur á sama tíma húmor fyrir því. Það er góð blanda.
Nælið ykkur í eintak á næsta bókamarkaði.