Ég gekk í Alþýðubandalagið árið 1991, sextán ára gamall. Mikið var ég stoltur þann dag.
Ég yfirgaf Alþýðubandalagið haustið 1999, um það leyti sem verið var að vinna að stofnun Samfylkingarinnar sem formlegs stjórnmálaflokks. Það voru þung spor.
Það voru margar ástæður fyrir að ég fór. Margar tengdust því að ég hafði séð eftir góðum vinum og kunningjum yfir í VG. Aðrar vörðuðu hluti innan Abl. og síðar Samfylkingarinnar sem ég var ósáttur við. Mest af því hef ég rakið á þessari síðu.
En það má þó segja að eitt atvik hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Það tengist Jóni Ólafssyni, sem nú er víst kunnastur fyrir vatnsútflutning. Ég hef rakið þessa sögu í einkasamtölum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hins vegar hef ég ekki skrifað hana á þessa síðu, fyrr en núna…
Haustið 1999 sat ég fundi í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins sem fulltrúi ungliðahreyfingarinnar. Þetta voru með eindæmum leiðinlegir fundir, þar sem mórallinn var afar vondur. Samfylkingunni gekk ekkert alltof vel í skoðanakönnunum og mikil orka fór í að kenna öðrum um ófarirnar. Pirringurinn í garð sumra af nýju samherjunum var áberandi og aðalumræðuefnið var skuldir og peningamál.
Einn slíkur fundur var haldinn þriðjudaginn 31. ágúst. Yfirleitt er seinnihluti ágústmánaðar steindauður í pólitíkinni, en þarna bar svo við að það var spenna í loftinu. Þennan sama dag var hluthafafundur FBA haldinn, þar sem Orca-hópurinn fékk sína menn kjörna í stjórn bankans. Menn skynjuðu þetta sem mikil tímamót og að valdablokkir í viðskiptalífinu væru að riðlast. Davíð Oddsson var sagður hundfúll yfir að “rangir aðilar†væru að ná völdum í FBA og “eyðileggja†þannig einkavæðinguna. (Þessi saga hefur öll verið rakin betur annars staðar.)
Sama dag varpaði Sigurður G. Guðjónsson svo sprengju. Sigurður var kunnastur sem lögmaður Jóns Ólafssonar – mannsins sem forysta Sjálfstæðisflokksins hataði mest allra og var nú að komast til valda í FBA. Á dagblaðinu Degi birtist massíf opnugrein þar sem Sigurður bar forystu Sjálfstæðisflokksins þungum sökum, þar á meðal að Kjartan Gunnarsson hefði beitt sér gegn Íslenska útvarpsfélaginu á vettvangi Landsbankans og staðhæft að fyrirtæki Jóns hafi verið krafin um framlög í sjóði Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðismenn svöruðu strax fullum hálsi í fréttum ljósvakamiðlanna. Þar var að mig minnir dylgjað um viðskiptasiðferði Jóns Ólafssonar og hann spyrtur saman við R-listann. Oft mátti skilja á íhaldinu á þessum árum að Jón Ólafsson ætti R-listann með húð og hári.
Það var því aldrei þessu vant lífleg stemning í upphafi framkvæmdastjórarfundarins. Við lágum yfir grein Sigurðar og veltum vöngum yfir því hvernig Valhöll myndi snúa sig út úr þessu. Svo byrjaði fundurinn og okkur var aftur kippt niður á jörðina í umræðum um skuldir.
Þegar fundurinn var hálfnaður, gekk maður inn í herbergið. Hann stoppaði – hafði greinilega ekki átt von á að fundur væri í gangi. Hann heilsaði þó glaðlega. Allir snarþögnuðu og urðu dálítið kindarlegir, en flestir höfðu þó rænu á að taka undir kveðju Jóns Ólafssonar.
Margrét Frímannsdóttir afsakaði sig, stóð upp og þau Jón héldu saman inn á skrifstofu hennar. Fundurinn hélt áfram og tíu mínútum síðar gekk Jón út en Margrét settist aftur hjá okkur. Enginn sagði orð um þennan óvænta gest – nema einhver lét út úr sér brandara um að þessar upplýsingar myndu nú aldeilis kæta vini okkar í Stjórnarráðinu…
Það var á þessu augnabliki sem ég sá að mér yrði ekki vært lengur í Alþýðubandalaginu (og þar með Samfylkingunni). Mér fannst það óviðkunnanlegt að sjá Jón Ólafsson stika nánast beint frá hluthafafundinum í FBA, þar sem hann hafði setið ásamt Þorsteini Má Baldvinssyni, Eyjólfi Sveinssyni, Jóni ísgeiri Jóhannessyni og Gesti Jónssyni – til að halda á fund talsmanns Samfylkingarinnar. Á sama tíma vildum við ekkert við þessi tengsl kannast.
Verst þótti mér þó að sjá hversu félögum mínum virtist lítið brugðið við þessa uppákomu. Ég upplifði það hreinlega þannig að sumum í flokknum þætti það “tilheyra†– svona úr því að við værum loksins komin í stóran jafnaðarmannaflokk – að fá að plotta með hákörlunum úr bissneslífinu. Sjálfstæðisflokkurinn fundaði með peningamönnum í reykfylltum bakherbergjum og núna fengjum við að vera með líka…
Líklega var þetta ekki rétt mat hjá mér – eða ég vona það að minnsta kosti. En hvað mig varðaði var Alþýðubandalagið endanlega dautt. Ég fór ekki að vafstra í pólitík til að taka þátt í svona hrossakaupum. Þá væri betra að gera eitthvað allt annað við tíma sinn og orku.