Kom heim um fjögurleytið í nótt úr frábærri menningarferð.
Leikurinn tapaðist illa, en eiginlega stóð mér á sama – þrátt fyrir allt var stemningin í kringum okkur slík að úrslitin skiptu litlu máli. Hefði hins vegar orðið dragfúll ef ég hefði setið heima og fylgst með framvindu mála í gegnum netið.
Við ferðafélagarnir skoðuðum fjölmarga afbragðsgóða pöbba, drukkum fullt af góðum ale og átum nóg af bragðsterkum mat. Næturlífið í Leeds er ágætt og York er frábær að deginum til.
Næst þegar Íslendingar ráðast í útrás og kaupa verslanir í Bretlandi, er ég kominn með frábært viðskiptamódel: að opna kvenfataverslun í norður Englandi sem sérhæfir sig í sölu á buxum, kápum og flatbotna skóm. – Ekkert af þessu virðist fáanlegt á þeim slóðum.