Þráhyggja mín varðandi enska boltann er að ná nýjum hæðum.
Ég er farinn að standa mig að því að vita alltof, alltof mikið um fjármál og eignarhald – ekki bara hjá Luton – heldur ekki síður hjá Bournemouth og Chester, liðum sem eru fyrir ofan okkur og gætu lent í peningavandræðum eða hreinlega farið á hausinn.
Það hefði þurft að segja mér það þrisvar fyrir fáeinum árum að ég ætti eftir að geta nefnt tæplega tíu fyrrverandi og núverandi eigendur og stjórnarmenn AFC Bournemouth. Ætti ég að hafa áhyggjur af þessari staðreynd?
Málið verður reyndar sífellt reyfarakenndara – og til að krydda söguna enn frekar eru örlög félaganna nátengd.
Þannig er mál með vexti að í byrjun keppnistímabils þurftum við, Rotherham og Bournemouth (sem öll byrjuðum með vænan stigafrádrátt) að sannfæra deildina um að rekstur liðanna væri lífvænlegur. Þetta var stíf rannsókn – amk hvað Luton varðaði – og þýddi að félagið fékk ekki heimild til að semja við leikmenn fyrr en innan við viku fyrir fyrsta leik.
Á sama tíma fékk Bournemouth keppnisleyfið þótt strax væri byrjað að skrafa um það að reksturinn stæði á brauðfótum. Málið er að eigandi Bournemouth, yfirlýstur stuðningsmaður Chester City (og sem skrifar reglulega á spjallborðið þeirra og mætir á flesta leiki) vildi selja félagið. Hann handsalaði samning við kaupsýslumann sem náði að sannfæra ensku deildina um að hann myndi taka yfir félagið um leið og hann næði að losa fé úr fyrirtækjunum sínum. Deildin keypti þetta og gaf keppnisleyfið.
Síðla á síðasta ári fór hinn fyrirhugaði kaupandi – sem þó var búinn að taka yfir reksturinn – að selja ársmiða næsta tímabils á hálfvirði, að því er virtist til að eiga fyrir desemberlaunum leikmanna og starfsfólks. Það jafngildir því að pissa í skóinn sinn, því í þessari deild er launaþak sem þýðir að liðin mega ekki borga nema visst hlutfall af tekjum í laun. Ef liðið missir stóran hluta miðasölunnar á næsta tímabili yfir á þetta ár, er það í verulega vondum málum að ári.
Um áramótin var tilkynnt að kaupsýslumaðurinn gæti ekki keypt félagið, þar sem eignir hans væru óseljanlegar vegna kreppunnar. Nýr aðili var kynntur til sögunnar. Hann réð nýjan framkvæmdastjóra og sagðist hafa sterka bakhjarla – hins vegar væri leyndarmál hverjir þeir væru og hverjir væru með honum í stjórn. Það yrði tilkynnt um mánaðarmótin janúar/febrúar.
Stóri séns Bournemouth var að Southampton myndi selja í úrvalsdeildina hinn bráðefnilega Lallana í félagaskiptaglugganum núna í janúar og Bournemouth fengi 25% í uppeldisþóknun. Það gerðist ekki.
Nánast um leið og félagaskiptaglugginn lokaðist, fóru hlutirnir að gerast hratt. Hinn væntanlegi kaupandi Bournemouth bað deildina um leyfi til að fá að semja við nýja leikmenn. Það var veitt – á grunni þess að liðið myndi geta staðið skil á sínu. Klukkustund eftir að skrifað var undir við leikmennina, var gefin út tilkynning um að kaupandinn myndi ekki geta staðið við gerðan samning.
Það þýðir að gamli eigandinn, Chester-stuðningsmaðurinn, situr enn uppi með Bournemouth. Hann hefur þó lýst því yfir að hann hafi enga möguleika á að stnda straum af daglegum rekstri. Við þetta bætist að félagið lenti um daginn fyrir dómi, þar sem kröfuhafi var með einhvers konar fjárnámsbeiðni – sem samið var um frestun á, gegn loforði hins fyrirhugaða kaupanda um að ganga í ábyrgð. Núna er tæp vika í skuldaskil.
Bournemouth er í vondum, vondum, vondum málum. Líklega getur þetta bara endað á einn veg – með algjöru gjaldþroti þessa gamalgróna klúbbs (sem lék einu sinni í Henson-búningum). Spurningin er hins vegar – mun það gerast núna og þá gagnast okkur Luton-mönnum eða bíður það næsta eða þarnæsta árs?
Hvernig hangir þetta saman við örlög Chester? Jú, það er félag sem hefur líka verið í höndum fjárglæframanna. Núverandi eigandi hefur meira að segja nýverið fengið fangelsisdóm fyrir fjársvik. Hann hefur lengi reynt að selja en enginn viljað kaupa.
Gamli Bournemouth-eigandinn hefur lengi stefnt að því að fjárfesta í sínum klúbbi og ætlað að nota til þess söluhagnaðinn af Bournemouth. Sem stendur er ekkert útlit fyrir að þeir peningar fáist í bráð.
Á meðan er Chester City bannað að kaupa nýja leikmenn. Þeir hafa sextán atvinnumenn á skrá. Á kvöld léku þeir heimaleik fyrir framan 1.300 manns (sem þykir skandall) og voru með fimm sextán ára stráka úr unglingaliðinu á bekknum. Hálfur leikmannahópurinn yfirgaf félagið um mánaðarmótinn – flestir til að ganga til liðs við utandeildarlið eða félög í Wales. Heimavöllur Chester er reyndar frægur fyrir að vera eini knattspyrnuvöllur í heimi sem er á landamærum.
Til viðbótar við þetta berast fregnir af því að Accrington Stanley gæti lent í því að vera dæmt úr deildinni, þar sem liðið hefur svikið loforð um að standsetja heimavöll sinn þannig að hann standist staðla deildarinnar, þar á meðal um að geta tekið 5000 áhorfendur. Það virðist þó frekar langsótt haldreipi.
…en núna eru lesendur þessarar síðu vonandi einhverju nær um hvaða mál það eru sem halda mér vakandi á nóttunni og eiga hug minn allan.