Kannski muna einhverjir óðir Liverpool-stuðningsmenn eftir Stephen Vaughan, sem var lengi talinn einn efnilegasti táningurinn á Anfield, lék slatta af unglingalandsleikjum og með varaliðinu – en var svo látinn fara.
Stephen Vaughan leikur nú hjá Chester City (sem dyggir lesendur þessarar síðu ættu nú að vera farnir að kannast við), en pabbi hans og alnafni rekur einmitt Chester. Vaughan eldri er ekki maður sem er vandur að vinum. Á vinahópnum var Curtis Warren, sem nefndur hefur verið stærsti eiturlyfjabarón Bretlands.
Vaughan lagði AFC Barrow í rúst, eins og lesa má um hér. Það má heita óumdeilt að hann notaði knattspyrnufélagið til að þvo eiturlyfjapeninga fyrir félaga sína.
Núna rekur hann sem sagt Chester City og gengur ekkert að selja félagið. Reksturinn er í molum og undir eðlilegum kringumstæðum væri klúbburinn löngu kominn í greiðslustöðvun og nauðarsamninga. Sagan segir hins vegar að Vaughan megi ekki heyra á það minnst – ástæðan er jú sú að ef félagið fer í greiðslustöðvun geti hið opinbera komist í bókhaldið og það þoli ekki dagsins ljós.
Þetta eru dálaglegir kallar sem reka fótboltaliðin þarna í Bretlandi.