Krúttlegt – en krípí (b)

Vegna fjölda áskorana hefur verið tekin upp nýjung á þessari sí­ðu. Færslur sem einvörðungu fjalla um fótbolta verða eftirleiðis merktar með bé-i innan sviga. Þá geta antisportistar stillt sig um að smella á þær af blogggáttinni og sambærilegum rss-veitum.

Luton-menn eru kátir þessa daganna. Liðið er að sönnu á leiðinni út úr deildarkeppninni, en fyrr í­ þessum mánuði kom titill í­ hús – þegar Luton Town sigraði í­ grí­ðarsterku knattspyrnumóti í­ Sviss. Andstæðingarnir voru engir aukvisar eins og röð fimmtán efstu liða ber með sér:

1. Luton Town

2. Bayern Munchen

3. Borussia Dortmund

4. Grasshoppers

5. Landslið Fí­labeinsstrandarinnar

6. Werder Bremen

7. Zenit frá St. Pétursborg

8. Sachsen Leipzig

9. Liepajas Metalurgs (frá Lettlandi)

10. CSKA Mosvu

11. FC Aarau (frá Sviss)

12. Náutico (frá Brasilí­u)

13. Manchester United

14. Chiasso Mendrisio (frá í­talska hluta Sviss)

15. Landslið Nýja-Sjálands

Þetta er að sönnu glæsilegur listi og ekki amalegt að sjá Luton skjóta Manchester United, Bayern og sterkum afrí­skum landsliðum aftur fyrir sig!

Það eina sem skyggir á afrekið er sú staðreynd að um var að ræða innanhúsknattspyrnumót stráka, ellefu ára og yngri.

Hjarta knattspyrnuáhugamannsins fyllist vitaskuld stolti yfir svona sigrum – en um leið er eitthvað sem truflar mann við að knattspyrnufélög haldi úti liðum sem skipuð eru smápjökkum. Hvernig geta menn teflt fram landsliði ellefu ára barna? Ættu ekki að vera einhverjar reglur sem banna svona?

En skí­tt með það – bikar er bikar!